Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Svipur helgarinnar...

eggert

Þetta er...merkilegt nokk...Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham United.  Þegar myndin er tekin er West Ham yfir, 1-0, gegn Wigan.  Myndasmiðir virðast hafa horfið frá því að taka fleiri myndir, West Ham vann jú leikinn 3-0.

Man.United sýndi mátt sinn og megin um helgina.  Vakninguna í leiknum gegn Everton, og þar með sigurinn, geta United-menn þakkað Ófeigi vini mínum.  Þegar Everton komst í 2-0 í upphafi síðari hálfleiks stóð hann upp frá sjónvarpinu, brá sér inn í svefnherbergi og skipti um föt.  Hann fór í fötin sem hann var í þegar hann heimsótti Old Trafford í fyrsta sinn í tilefni fergugsafmælisins fyrir skemmstu.  Skömmu síðar datt United í gírinn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ófeigur hefur bein áhrif á gang mála í íþróttakappleikjum.  Hann hefur tryggt Man.United og KA ófáa sigra og titla í gegnum tíðina með frumsaminni og frumlegri setustellingu við sjónvarpið.  Sjúkraþjálfarinn telur líklegt að með nokkuð reglulegri meðferð muni hann ná að vinna á svæsnustu bakverkjunum.

Árshátíð Skjásins um helgina.  Fátt óvænt.  Engir skandalar.


Lítill heimur!

Fyrir nokkrum árum lék stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur knattspyrnu með hinu fróma knattspyrnuliði Skallagrími.  Guðlaugur þótti nothæfur knattspyrnumaður, líklega er best að lýsa honum þannig að dugnaðurinn og eljan hafi borið fegurðina ofurliði.  Allar fullyrðingar um að mannfæðin í Borgarnesi hafi gert það að verkum að Guðlaugur var byrjunarliðsmaður í annarri deildinni (núverandi fyrstu deild) eru á misskilningi byggðar.

Guðlaugur skoraði eitt umtalaðasta sjálfsmark íslenskrar knattspyrnusögu.  Umtalið er aðallega tilkomið vegna glæsileiks og fegurðar.  Því er haldið fram enn þann dag í dag að þetta sé fallegasta mark sem skorað hefur verið á Akureyrarvelli.  Gulli tók boltann á lofti, vel fyrir utan teig, og smurði hann upp í vinkilinn fjær.  Þetta var eitt þrettán marka sem KA skoraði gegn Skallagrími í leik sem ekki er skráður til bókar og markið góða er því ekki mark í opinberum skjölum.  Borgnesingar sögðu sig nefnilega frá keppni fljótlega eftir þennan leik, með markatöluna 4-99, og þar með voru úrslit leikja þeirra þetta sumar dæmd ómerk. 
Markið góða hefur hins vegar lifað sjálfstæðu lífi.  Þeir sem voru á Akureyrarvelli og sáu þetta með eigin augum hafa verið duglegir að segja frá og lýsa markinu í smáatriðum, draga ekkert undan og stundum upplifa sögumenn m.a.s. svipaðar tilfinningar og þeir fundu fyrir þegar boltinn söng í netinu, rétt neðan við þverslána og alveg úti við stöng.  Það er merkilegt að verða vitni að því þegar allar þessar tilfinningar brjótast fram.  Ég sá leikinn ekki sjálfur, en fjölmargar lýsingar frá ólíklegustu aðilum og frá hinum ýmsu sjónarhornum gera það að verkum að ég upplifi þetta rétt eins og ég hafi verið á staðnum.  Ég er ekki einn um það.
Markið kemur til með að fylgja stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur um ókomna tíð.  Markið kom m.a.s. við sögu á árshátíð MA.  Í miðju skemmtiatriði, sem kom knattspyrnu nákvæmlega ekkert við, kom maður í Skallagrímsbúningi hlaupandi inn á sviðið, sveiflaði fæti að hætti fótafimra Borgnesinga og féll svo í gólfið í svekkelsi.  Það skildu allir brandarann. 
Hér er einmitt kominn ástæðan fyrir þessari ótímabæru upprifjun þessa merka augnabliks í íslenskri knattspyrnu.  Leikarinn góði, sá sem klæddist Skallarímstreyjunni og kom á örskotsstundu á framfæri bæði gleði og svekkelsi með eftirtektarverðum og eftirminnilegum hætti, er farinn að vinna með mér.  Á hverjum einasta morgni óska ég Eiríki velfarnaðar í leik og starfi og á sömu andrá rifjast upp fyrir mér þetta frábæra mark, sem ekki var mark, sem ég sá ekki, en hef samt upplifað í gegnum samferðarmenn og markaskorarann sjálfan.  Við megum ekki gleyma þessu marki!

Framlag til vítaspyrnuvælsins í Mourinho.  Maðurinn fer að detta í það að vera hundleiðinlegur.
Þetta er tölfræði frá Infostrada. 

Staðreynd :Víti gegn toppliðunum eftir að Mourinho kom til Englands:

Á Old Trafford:

06/07: Bolton, Gary Speed, mark
06/07: Wigan, Leighton Baines, mark
06/07: Arsenal, Gilberto Silva, klikk
04/05: WBA, Robert Earnshaw, mark

Á Highbury/Emirates:
06/07: Blackburn, Shabani Nonda, mark
04/05: C. Palace, Andy Johnson, mark

Á Stamford Bridge:
05/06: Fulham, Heidar Helguson, mark
05/06: Blackburn, Craig Bellamy, mark

Á Anfield:
05/06: Chelsea, Frank Lampard, mark
 

 

Rakst svo á þessa frétt á Reuters.   Þetta heitir að draga rökréttar ályktanir!

 

 supermanlogo

BELGRADE (Reuters) - Serb media responded on Wednesday with a sense of pride and patriotism that a new mineral had been found in Serbia closely resembling the makeup of fictional "kryptonite," which rendered Superman helpless.

Reacting to the discovery of the real new mineral in western Serbia, they pointed out that "kryptonite" was created from the remains of Superman's home planet Krypton, destroyed in a fireball.

"Superman is a Serb!" was the conclusion drawn in headlines favored by several newspapers.

The daily Kurir said: "Finally we have scientific proof that we are God's own people!"
Even the staid pro-government daily Politika joined in the fun, speculating that the 'S' on the Man of Steel's blue costume really stood for 'Serbia'.

In the comics, Superman would do anything to avoid kryptonite, whose glowing green crystals sapped his powers.
The actual mineral found at a mine near Jadar does not glow, is not radioactive, has very tiny crystals and is white rather than green. It is to be named Jadarite.

While concluding an extensive examination of its unique chemistry, mineralogist Chris Stanley of London's Natural History Museum stumbled on a close match with 'kryptonite', as described in the movie 'Superman Returns'.
The museum quoted Stanley as saying he searched the Internet for the mineral's formula -- sodium lithium boron silicate hydroxide -- and found the same scientific name written on a case containing kryptonite stolen by Lex Luthor in the movie.

Þetta...

...finnst mér fyndið!

 ny-paris

Samkvæmt lið nr. 24 eru Google-menn þeirrar skoðunar að hentugasti ferðamátinn milli New York og Parísar sé...sund!

Ég fletti upp leiðbeiningum um það hvernig ég kemst akandi frá New York til Angelica, hvar ég dvaldi við nám og leik fyrir fáeinum árum.  Það á að vera tiltölulega einfalt að keyra þarna á milli, en leiðbeiningar Google eru í 21 lið!  Teknar eru fram aflíðandi beygjur á veginum.
Ökuleiðin Buffalo - Angelica, sem er jafnvel enn einfaldari, er í 18 liðum.  Ég er ekki frá því að ég muni eftir kúnni sem minnst er á að standi jórtrandi í túnjaðri Old State Road.

 

Þetta finnst mér líka kjánalega fyndið... 


Enn er von!

Þetta er Gene Gnocchi, vinsæll ítalskur sjónvarpsmaður og spaugari.

gnocchi

Gnocchi, sem er 52 ára, er einn stjórnenda Quelli che il calcio, sem er fótboltaættaður þáttur á sjónvarpsstöðinni Rai Due.  Hann biðlaði fyrir skemmstu til stjórnenda liðanna í Serie A um að gefa sér tækifæri til að spila í svo sem eins og fimm mínútur í deildarleik.  Gnocchi hefur löngum haldið því fram að fjölmargir leikmenn í Serie A séu ofmetnir, hreinlega ekki nógu góðir til að spila í einni sterkustu fótboltadeild heims og hann vill meina að hann sé sjálfur jafngóður, ef ekki betri, en stór hluti þessara leikmanna.  Hann bað því um tækifæri til að sanna þessa kenningu og réttlæta gagnrýnina.  Ekki ómerkari menn en Alessandro Del Piero og Marcello Lippi gengu í lið með Gnocchi og Atalanta, Siena og Torinso sýndu málinu áhuga.  Bologna, sem reyndar spilar í Serie B, bættist í hópinn, en svo fór að lokum að blautasti draumur Gnocchis rættist...hann gerði samning við uppáhaldsliðið sitt, Parma. 
27.mars sl. samdi Gene Gnocchi við Parma til loka leiktíðarinnar.  Hann er á launaskrá, fær lágmarkslaun ítalskra atvinnumanna í knattspyrnu sem eru í kringum ein og hálf milljón ísl. króna yfir leiktíðina.  Gnocchi valdi sér treyjunúmerið 52, sem er náttúrulega beintenging við aldur kappans, og knattspyrnunafnið Gnoccao, sem er einhvers konar Brasilíu-paródía.  Reiknað er með að Gnocchi fái að spreyta sig í lokaumferð Serie A, sem fram fer þann 27.maí, en þá á Parma leik gegn Empoli.  Ef svo fer, sem reyndar margt bendir til, að Parma verði á þessum tímapunkti enn að berjast fyrir lífi sínu í Serie A gæti þó orðið breyting á áður auglýstri dagskrá.

Vantar Val eða FH ekki alltaf þokkalegan miðjumann til að spila fimm mínútur eða svo í leik?  Treyjunúmerið yrði talsvert miklu lægra en 52!  Ég væri jafnvel til í að skoða ÍA...ef ég fæ að sleppa ísböðunum.


Vorboðinn ljúfi!

Þvottaplön.  Algjört lykilatriði í árstíðarskilgreiningum á Íslandi.  Það er svo merkilegt að landsmenn rýna frekar í dagatalið og fyrirbæri eins og sumardaginn fyrsta þegar þeir meta það hvort "óhætt" sé að þvo bílinn á næsta þvottaplani.  Þetta snýst eiginlega ekki um hlýnandi veður og aukna geðprýði.  Það er bara búið að ákveða það að sumarið sé komið og þar með er það orðið bíleigendum gríðarlega mikilvægt að standa lopnir og kalnir á tánum á næsta þvottaplani.  Til að auka á vellíðan er vatnið við frostmark, en þá er bara að bíta á jaxlinn af enn meiri krafti og taka þetta á karlmennskunni.  Það er jafnvel til í dæminu að menn bíti sig til blóðs, bara til að draga athyglina frá máttleysinu í frostnum fingrunum og suðinu í eyrunum.
Ég sá mann sem var að bóna bílinn sinn við bensínstöð fyrir hádegi í dag.  Hann var blár á vörunum og mér sýndist olnbogarnir vera frostnir fastir.  Bónið fraus á bílnum og ef einhver labbaði framhjá fauk fíngert bónduftið út í veður og vind.  Samt sýndist mér bónarinn vera nokkuð sáttur.  Hann var jú að sinna sumarverkum.  Á stuttermabol. 

Svona var umhorfs við þvottaplanið á ónefndum stað.  Biðröð, hvað þá annað.  Þetta er nett geggjun...

Mynd035

 

 

 

 

 

 

 

 




Ég heyrði aðeins í Bjarna Harðar í útvarpinu í gær.  Man ekkert um hvað hann var að tala, en við þessa hlustun rifjaðist upp fyrir mér útvarpspistill sem hann flutti fyrir einhverjum mánuðum.   Bjarni setti þar fram áhugaverða "kenningu" um einn mesta kappa Íslandssögunnar, Gunnar á Hlíðarenda.  Bjarni hafði, eftir miklar pælingar, komist að því að Gunnar hefur mjög líklega verið heyrnarlaus.  Hann hafði jú einna mest samskipti við hinn skegglausa Njál á Bergþórshvoli og samtöl þeirra gengu mjög gjarnan út á það að Njáll var að leggja Gunnari línurnar fyrir væntanlegan hitting, t.d. þegar hann hugðist biðja sér konu.  Njáll sagði Gunnari hvað hann ætti að segja, hvert svarið yrði og hvernig hann ætti að svara því...og svo koll af kolli.  Gunnar var s.s. að fá handrit að væntanlegu samtali.  Skeggprýði var jú landlæg á árum áður, sem gerði Gunnari erfitt um vik, ef kenningin er rétt.  Skeggið gerði það að verkum að hann átti erfitt með að lesa af vörum...nema þegar hann "talaði" við Njál...sem var skegglaus með öllu. 
Ekki nóg með það.  Til eru sögur af því að hestur hafi sparkað í höfuð Gunnars hvar hann reið framhjá.  Þetta er varla hægt nema að Gunnar hafi verið krjúpandi eða hreinlega liggjandi, sem fátt bendir til.  Skýringin?  Jú...hann var dvergvaxinn!  Það skýrir það þá í leiðinni hvers vegna honum reyndist tiltölulega auðvelt að stökkva hæð sína í fullum herklæðum.  Gunnar á Hlíðarenda var s.s. heyrnarlaus dvergur, samkvæmt þessari kenningu Bjarna Harðarsonar.


Á meðan ég man.  Ég get haft milligöngu um eigendaskipti stálfelga og rándýrra hjólkoppa undan...og undir...Mercedes Benz.  Umsýslugjald mitt er sanngjarnt og greiðslufyrirkomulag umsemjanlegt.

Mynd018

 

 

 

 

 

 

 

 




Hjólkopparnir eru handsmíðaðir á litlu verkstæði í suðurhluta Svartaskógar og þykja mjög fínir.  Hér gefst kærkomið tækifæri til að eignast ótrúlega vandaða vöru, sem mjög líklega mun vekja aðdáun og öfund samferðafólks.  Ég myndi m.a.s. segja að hér væri komið tilefni til að fjárfesta í bifreið af gerðinni Mercedes Benz, ef slík er ekki til eignar nú þegar, þótt ekki væri til annars en að geta stært sig af hjólkoppunum.


Má þetta???

kjarval

Það er líklega við hæfi...

...að óska KR-ingum til hamingju með titilinn. 

Benni Guðmunds fær sérstakar árnaðaróskir.  Það hlýtur að vera sérlega ljúft og sætt að snúa "heim" aftur eftir lærdómsríka og að mörgu leyti eftirtektarverða "fjarveru" og skila titli í hús.  Benni sýndi það og sannaði, sérstaklega í úrslitakeppninni, að hann á skilið allt það hrós sem á hann hefur verið hlaðið. 

KKÍ á líka hrós skilið fyrir ágætt utanumhald.  Friðrik Ingi og hans fólk er að gera fína hluti.  Ekkert óðagot, en þetta skilar sér hægt og bítandi.  Leikjaumgjörðin hefur breyst til hins betra og bikarúrslitaleikirnir eru ágætt dæmi um framfarir.  Ekki svo að skilja að allt hafi verið í kaldakolum, en það munar um það t.d. að sjá alla þá sem koma að bikarúrslitaleikjum með beinum hætti uppáklædda og verðlaunaafhendinguna færða til í húsinu. 
Fréttaumfjöllun hefur verið ágæt, ekki er á neinn hallað þótt nöfn Sigurðar Elvars og Óskars Ófeigs séu nefnd í því sambandi og þá ekki síst fyrir ítarefni af ýmsum toga.  Ég skal viðurkenna að ég var svolítið hissa á tímasetningum leikja í kringum páskahátíðina, leikjauppröðun gerði það að verkum að blaðaumfjöllun var af skornum skammti og fréttaáhorf reyndar svolítið sérstakt þessa daga, en líklega er ekki hægt að hafa allt óaðfinnanlegt. 
Tvennt er það sem snýr að íþróttabuffum og landsmönnum öllum og körfuboltinn hefur fram yfir aðrar íþróttagreinar á landinu bláa.  Tölfræðiupplýsingar og netumfjöllun.  Það er algjörlega með ólíkindum að t.d. HSÍ hafi ekki kveikt á tölfræðiperunni.  Ég veit að flinkir og fullfærir aðilar hafa boðist til að taka þennan hluta að sér, þ.e.a.s. að halda utan um og birta tölfræðiupplýsingar í handboltanum, en því var kurteislega hafnað.  Þar á bæ voru menn víst að bíða eftir nýju tölvuforriti.  Og bíða enn. 
Netumfjöllunin er gríðarlega mikilvæg og líklega má rekja þetta körfuboltauppihald á netinu til einnar bestu netsíðu allra tíma, nba.com.  Hvort sem menn hafa áhuga á körfubolta eða ekki verður ekki framhjá því litið að síðan sú er eitt besta dæmið um það hvernig nýta á möguleika alnetsins heimsbyggðinni til hagsbóta.  Mbl.is gerði t.d. gott mót með textalýsingu, sem virkar svona hálfpartinn eins og ódýrari týpan af leikvarpinu, sem einhverra hluta vegna hefur fjarað undan.


mbl.is KR-ingar Íslandsmeistarar karla í körfubolta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf finnur maður eitthvað...

...sem léttir lund.  Vörutorg er að koma sterkt inn.  Stórbrotinn sjónvarpsþáttur á S1, þar sem hugmyndaauðgi, lífsgleði og umhyggja fyrir náunganum gera það að verkum að maður þorir vart að depla auga á meðan á yndislegheitunum stendur.  Ég hef m.a.s. frestað því fram úr hófi að skoða nýju fínu myndirnar sem ég keypti í Perlunni um daginn- ég er svo hræddur um að missa af nýrri vöru hjá Vörutorgi.  Sjónvarpsþátturinn er auðvitað bara hliðarspor, heimasíðan er ásinn sem þetta snýst um.  Ég er búinn að finna þrjár vörur sem myndu létta mér lífið, auðga andann og líklega gleðja gesti og gangandi.

Allt byrjar þetta á því að þegar ég kem heim eftir langan vinnudag smeygi ég mér í heilsuinniskóna. 

heilsuskór

Samkvæmt lýsingu, sem engin ástæða er til að draga í efa, mun "fótum mínum líða eins og þeir séu í sjöunda himni".  Tilhugsunin ein um að fæturnir upplifi hluti sem aðrir hlutar líkamans missa af gera skóna afar eftirsóknarverða.  Galdurinn felst í frauðinu.

Þegar fæturnir hafa afpólað sig í alsælufrauði er orðið tímabært að elda eftirminnilega máltíð.  Slíkt er nánast óhugsandi nema maður hafi við höndina salt- og piparkvarnir með ljósum. 

saltogpipar

Ég er ekki enn farinn að ná utan um það hvernig ég komst af án þessara kvarna.  Fyrir utan það að maður er með salt- og piparmagnið algjörlega á kristaltæru (ljósbirtan tryggir hárrétt magn) getur maður duflað við matreiðslugyðjuna í rafmagnsleysi.  Jafnvel ef peran springur og ananasinn er búinn!

Dagurinn er svo fullkomnaður þegar sest er niður í kvöldhúminu, málin rædd og lífsins gátur leystar.  Kvöldið verður dapurt og gleðisnautt, nema að til staðar sé súkkulaðigosbrunnur.

sukkuladibrunnur

Hvaða organdi snillingur fann þetta eiginlega upp?  Nú skilur maður loksins af hverju súkkulaði er steypt í flatar blokkir.  Það er auðvitað gert til þess að auðvelda flutningana...frá verksmiðjunni og heim til þeirra hundruða þúsunda sem eiga súkkulaðigosbrunn.  Hvað getur hugsanlega verið betra en að dýfa flatbrauðinu í súkkulaði?

Ég er svolítið hissa á því að hafa ekki fengið einhvern þessara hluta í afmælisgjöf.


Líklega á manni eftir að leiðast alveg óskaplega þegar hlutir hætta að koma manni á óvart.  Hlustaði aðeins á handboltalýsingar á Rás II í dag.  Það var óendanlega hressandi að hlusta á Frey Eyjólfs og Ágúst Boga lýsa handbolta.  Ég beið eftir því að Freysi tæki viðtal við markaskorara og Gústi segði mér úthlaupaferil markmannsins.  Ég var samt spenntastur yfir því að heyra hvaða leik Andrea Jóns ætlaði að lýsa.

Mánudagsgetraunin. 
Spurt er um tónlistarmann.  Hann er einsmellungur.  Væri hann NBA-aðdáandi, sem mér finnst frekar ólíklegt að hann sé, myndi hann eflaust halda með Celtics.  Tónlistarbröltið hans er kennt við vesturströndina, þar sem hljómsveitin hans náði afar óspennandi árangri áður en hann hélt út á einherjabrautina.  Lagið sem hann er þekktur fyrir kom út á plötu árið 1969 og varð stórsmellur.  Kappinn náði ekki að fylgja laginu eftir, tilraunirnar til þess voru reyndar í besta falli sorglegar.  Hann hætti tónlistarbröltinu árið 1972 og gerðist kúabóndi.  Á níunda áratug síðustu aldar lét hann aðeins að sér kveða sem umboðsmaður og skipuleggjendi minniháttar tónlistarhátíða, en nýjustu fregnir herma að sambúðin við kýrnar sé í glimrandi blóma.

Hver er maðurinn...og hvað heitir smellurinn hans?


Buff...

...er frábær hljómsveit.  Hún lyfti Söngkeppni framhaldsskólanna upp á æðra plan. 
Merkilegt annars með þessa keppni, sem er ljómandi skemmtileg, að þeir og þær sem náð hafa tónlistarframa af einhverri sort í kjölfar hennar hafa sjaldnast raðað sér í efstu sæti keppninnar sjálfrar.

Tölvan mín tók upp á því um daginn að birta áður óþekkt tákn í stað hinna hefðbundnu bókstafa við liprandi léttan og leikandi áslátt.  Mér datt fyrst í hug að þetta væri merki "að ofan"; að mér væri ætlað það stóra og mikla hlutverk að koma á samskiptum milli jarðarbúa og geimvera...að verur hefðu plantað samskiptakerfi í tölvunni minni.  Þegar ég fór að velta málinu aðeins fyrir mér mundi ég svo að ég hafði geymt tölvuna á gólfinu eitt kvöldið og ástæða þessarar táknmyndunar er líklega álitsgjöf þessa unga manns á gripnum...

Tumi

Hann hefur líklega haldið að IBM-inn væri einhver ódýr og hægfara garmur og lyft fæti.  Þetta kostaði reyndar viðgerð, sem ég svo nýtti til uppfærslu, og nú get ég stýrt tölvukerfi Pentagon, lestarkerfi London og miðstýrt útrás íslensku bankanna frá heimili mínu.  Það er allt í lagi að taka það fram að þjónustan hjá Nýherja var glimrandi góð.

Hér er flugmóðurskipið í hljóðveri á Rás II í allri sinni dýrð...eða því sem næst.

Móðurskip

Ég varð eiginlega að taka aðra mynd þar sem sjálfskipaðir greindarhólar drógu það í efa að á "nýja" mixernum væru fleiri takkar en hinum eldri.

Lauflétt getraun í tilefni dagsins.  Spurt er um hljómsveit.  Hún er bresk og varð í rauninni til með þeim hætti að gítarleikarinn tók við búi og skyldum annarrar sveitar, hvar hann sló á strengi, og vantaði nýja meðreiðarsveina.  Hann tók reyndar bassaleikarann úr hinni sveitinni með sér, en hann hætti fljótlega og við bassanum tók maður sem hafði séð um strengjaútsetningar á síðustu plötu hljómsveitarinnar sem var í andaslitrunum.  Upphaflega stóð til að ráða trommarann úr Procol Harum og söngvara og gítarleikara, sem líklega enn þann dag í dag sér eftir því að hafa ekki þáð boðið.  Þessi ágæti maður gerði svo endanlega í brók þegar hann mælti með öðrum söngvara sem hann taldi nokkuð efnilegan og sá tók boðinu fagnandi.  Nýi söngvarinn benti svo á trommara, sem var ráðinn og úr varð ein magnaðasta sveit allra tíma.  Hún spilaði að vísu til að byrja með undir öðru nafni, enda varð hún að klára tónleikaferðalag sem "undanfarinn" hafði lofað...og þetta nafn vísar ansi hraustlega í fyrri sveitina.

Hvað heitar þessar tvær hljómsveitir...þ.e.a.s. aðalsveitin og undanfarinn?

Bónusspurning...hver er sagan á bak við nafn hljómsveitarinnar?


Framlag til pólitískrar umræðu...

 

Picture 1

 

 

 

 

 

 

 

 ...og hvað ætlum við svo að kjósa? 


Næsta síða »

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband