Leita í fréttum mbl.is

100 klukkustundir!

Þetta er frábær bíómynda- og/eða bókartitill.  Þetta er hins vegar ekki jafn skemmtilegt í "réttu" samhengi.  Alþingismönnum þessarar þjóðar hefur tekist að þusa um RÚV-frumvarpið í rúmar 100 klukkustundir.  Þeir er komnir á sjötta sólarhring, samfleytt.  Eitt mesta áhyggjuefnið í þessu samhengi er það að þetta virðist vera fruss um flest annað en það sem skiptir máli; rekstrarumhverfi og hreinlega tilverurétt stofnunarinnar sem slíkrar. 
RÚV er tímaskekkja.  Risaeðla.  Barátta þessar frómu stofnunar og barningur á auglýsingamarkaði, þar sem hún á köflum olnbogar sig áfram í krafti stærðar sinnar, er út úr kú.  Hún nýtir ekki kosti sína til fullnustu, fer reyndar ekki nærri því einu sinni, og yfirbygginguna þarf að taka algjörlega í gegn.  Hvort alþingismenn endurtaki sig í ræðustóli, samflokksmenn virðist ekki stefna í sömu átt og sandkassaleikur um afgreiðslu úr þinginu skipta eiginlega engu máli.
Mér þykir vænt um RÚV, enda steig ég þar mín fyrstu fjölmiðlaskref.  Mér þykir sérlega vænt um Rás 2 og það svíður svolítið að heyra stöðina detta niður á ansi lágt plan auglýsinga- og markaðsmennsku, m.a. með því að gefa bíómiða í beinni útsendingu.  Svoleiðis lagað er mömmu RÚV hreinlega ekki samboðið.  Í RÚV-miðlunum felast ógurlegir möguleikar og það hreinlega verður að fara að koma þessu á það plan að vönduð vinnubrögð og hugmyndaauðgi fái að njóta sín.

Það hlaut að koma að því að menn kveiktu á þessari hugsanaskekkju að best væri að há baráttuna við Bakkus innan trúfélags.  Þórarinn Tyrfings tjáði sig loksins um þetta í fréttunum í kvöld.  Habban benti á þetta fyrir nokkrum dögum og pistill hennar er ágæt lesning.   

Ég veit ekki alveg af hverju, en nýtt framboð til formanns KSÍ er hressandi.  Það er upplífgandi að 26 ára kona skuli gefa kost á sér, tilbúin til að brjóta upp þessa stöðluðu ímynd hins jakkafataklædda karlmanns sem veitir þessu stærsta sérsambandi ÍSÍ forystu.  Hér er hvorki verið að finna að því að karlmenn klæðist jakkafötum né gagnrýna forystu KSÍ, en fátt í þessum heimi er fullkomið og hafið yfir skoðun og gagnrýni.  Hvort sem Halla nær kjöri eður ei verður þetta framboð líklega til þess að hrista svolítið upp í hlutunum, jafnvel breyta skoðunum og nálgunum, og það er afar jákvætt.   

Ég hafði það loksins af að kaupa mér nýjan prentara.  Sá gamli hafði reyndar dugað ágætlega allar götur síðan tölvuvæðing varð nokkuð almenn, en takmarkanir hans voru hins vegar talsverðar.  Hann hafði líka þann leiða ávana að bryðja blekhylkin af slíkum fitónskrafti að prentverk voru aldrei unnin í fjölmenni.  Nýja græjan býr yfir þeim kostum, auk dásamlegra prenthæfileika, að geta búið til eftirmyndir, bæði til útprentunar og geymslu í tölvutæku formi.  Ég borgaði hálfvirði fyrir hana.  Aðallega vegna þess að Siggi Prince afgreiddi mig í Elko.  Siggi er prýðispiltur sem ég kynntist fyrir margt löngu í hópferð á Prince-tónleika á Gentofte Stadion í úthverfi Kaupmannahafnar.  Stjarnan sáluga, fm 102.2, stór fyrir þessari hópferð sem taldi þrjá káta Prince-aðdáendur.  Ég á einhvers staðar myndir af okkur Sigga úr þessari ferð (þar sem hópurinn taldi aðeins þrjá eru bara til myndir af tveimur og tveimur í einu!) og verð að heiðra hann fljótlega með því að búa til eftirmyndir til birtingar á veraldarvefnum.  Siggi er svo skemmtilegur að ég keypti af honum myndavél líka.  Það stóð alls ekki til.  Mig hafði langað ansi lengi í Canon Ixus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Ekki gleyma fundunum 40 í menntamálanefnd og gestunum 150 sem komu og gáfu álit.  Grey Siggi bróðir.  Gæti ekki unnið með svona fólki.  Ég verð pirruð ef fólk telur sig þurfa að eyða meira en 5 mín í að ræða sína hlið mála á fundum á mínum vinnustað.  Valdirmar XIV hlýtur að vera hræðilegur ræðumaður, það getur ekki talist gott að sjá sig knúin til að koma skoðun sinni á framfæri á 6 klukkutímum!  Takk fyrir túkall

Hafrún Kristjánsdóttir, 18.1.2007 kl. 23:23

2 identicon

Siggi Sveins er toppmaður, ég hef samt aldrei fengið svona góðan afslátt hjá honum!!  Þyrfti kannski að vera kallaður Siggi Pet shop boy til að ég nyti sömu kjara og menn í hirð hans hátignar Prince.  Ps. finndu formúlu 1 leikinn melurinn þinn og skilaðu honum, vinur minn sem á hann hringir daglega þessa dagana!!

Kveðja, Bjarni Pet shop boy.

Bjarni J. (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 14:57

3 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Halló, halló!

Sverrir Páll Erlendsson, 31.1.2007 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband