Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Errare humanum est!
Það er nú bara þannig. Fátt hefur verið meira rætt manna í millum en ummæli Þorbergs Aðalsteinssonar í hinum annars ágæta sjónvarpsþætti Utan vallar. Þorbergur sendi út tilkynningu í kvöld og er fyrir vikið maður að meiri. Það var hressandi að fá tilkynninguna í hendurnar um leið og skriftan sagði "20 sekúndur í íþróttafréttir". Ég hefði líklega staðið betur að vígi ef Bogi hefði spurt mig út í áhersluatriðin í blómaskreytingum án atrennu. En...altént er þessum anga Þjálfaramálsins (ath. málið hefur öðlast eigið líf og er því ritað með stórum staf!) þá væntanlega og vonandi lokið, en eftir stendur spurningin...af hverju vill enginn þjálfa íslenska landsliðið í handbolta?
Júróvisjon er ekkert spes. Ég sannfærðist endanlega um takmarkað ágæti þessarar keppni og laganna sem ná þar lengst þegar ég heyrði lagið hans Magga Eiríks í einhvern konar júró-búningi. Dalvíkingurinn vann og það læðist að mér sá grunur að Dalvíkingar komi til með að vinna allar söng- og sönglagakeppnir ársins. Dr.Spock hafði augljósa yfirburði þegar kemur að skemmtanagildi, en það er kannski ekki endilega það sem þetta snýst um? Lagið hennar Fabúlu, sem Ragnheiður Gröndal söng, var líka lymskulega gott. Ragnheiður er kjánalega góð söngkona, líklega gæti hún gert safn laga úr sarpi Marc Almond hlustunarhæf á örskotsstundu. Bakraddirnar voru líka dásamlegar.
Þessu tengt. Ég hef ekki enn fengið botn í það hver það er sem ábyrgist að úrslit sem kunngerð eru í síma- og/eða sms-kosningu séu kórrétt. Hvernig veit sauðsvartur almúginn, búinn að eyða sparnaði síðustu mánaða í útpælt kosningakerfi sem sogar nokkra hundrað kalla til sín við hvert atkvæði að þetta eru ekki bara speglar og falskur botn?
Ég komst svo að því á dögunum að höfuðstöðvar Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, eru nær en okkur grunar. Þær virðast vera á tiltölulega lítt áberandi stað í Húsgagnahallarhúsinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Ummæli kvöldsins...
"Og þá eru ekki nema fjórir áhorfendur eftir..."
Miðað við síðustu áhorfskönnun hefur Unnur Birna farið hættulega nærri sannleikanum með þessari ígrunduðu fullyrðingu.
Annars mátti skemmta sér alveg þolanlega yfir Bandinu hans Bubba. Dalvíkingurinn á eftir að rúlla þessu upp...með örlítilli samkeppni frá síðasta keppanda kvöldsins.
Bandið er rosalegt. Þetta hlýtur að vera það næsta sem við Íslendingar höfum komist því að eignast ofurhljómsveit. Sveitin er átakanlega jafngóð og það er kjánalegt að gera upp á milli manna...en...þessa hrymsveit verður erfitt að jafna, hvað þá toppa; Addi er stjarnfræðilega góður trommari og bassinn var hreinlega fundinn upp til þess að Jakob Smári gæti látið ljós sitt skína. Fyrst Jakob ber á góma má benda á sérdeilis skemmtileg lög sem Kokteilkvartett Jakobs Smára flutti á Rás 2 fyrir einhverjum misserum og finna má í tónlistarspilaranum á síðu bassagúrúsins.
Í dag fann ég svo manninn sem ég ætla að taka mér til fyrirmyndar í leik og starfi...einkum starfi. Eða ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Þetta...
...myndband er birt til heiðurs Handknattleikssambandi Íslands. Upphafsatriðið er sérlega tilkomumikið og viðeigandi...öll él birtir upp um síðir. Hlýtur að vera.
Einn af hápunktum vikunnar hefur verið að fylgjast með viðkvæmni og varnartilburðum vegna athugasemda hins fróma íþróttafréttaritara- og rýnis Sigurðar Elvars við framferði og framkomu Miðjunnar, sem er hópur stuðningsmanna KR. Við sátum einmitt hlið við hlið á leiknum sem þarna kemur við sögu, KR - Keflavík í körfu karla, og dáðumst í sameiningu að stuðningssöngvum og almennri framgöngu Miðjunnar...á meðan þeir einbeittu sér að eigin liði og eigin félagi. Maður hrífst með og tuldrar við sjálfan sig að svona eigi einmitt að gera hlutina. Gamanið kárnaði hins vegar þegar söngvarnir og köllin fóru að snúast um líkamlegt atgervi eða einhver þau afrek andstæðinganna sem koma leiknum nákvæmlega ekkert við. Þar fór sjarminn og Miðjan varð einhvern veginn ekki alveg jafn aðdáunarverð. Miðjumenn hafa varið þennan gjörning sinn með undarlegum rökum og fullyrðingum, bæði á blogginu hans Elvars og sömuleiðis hjá hógværa Húsvíkingnum, en mér er það til efs að það myndi kæta þennan ágæta hóp manna ef stuðningsmenn andstæðinga í leik færu að hrópa og syngja níðsöngva um leikmenn KR. Miðjan hefur burði til að verða öðrum stuðningsmannahópum til fyrirmyndar í einu og öllu og hún var það framan af leik KR og Keflavíkur, söng skemmtilega söngva þar sem leikmönnum KR var lyft upp í hæstu hæðir og var bara skrambi skemmtileg. Hún festir sig í sessi sem algjörlega einstakur stuðningsmannahópur þegar hún lætur af þessari vitleysu að einbeita sér að andstæðingunum.
Það er svo margt skrítið til í henni veröld. Hér eru nokkur leikföng sem almenningi eru boðin til kaups á alnetinu, væntanlega með það í huga að gleðja börn, bæði eigin börn og annarra, og stuðla í leiðinni að auknum þroska og skilningi á tilverunni.
Þessar dúkkur eru framleiddar í Rússlandi. Annað hvort er framleiðandinn frekar kynvilltur...eða þetta er framlag hans til jafnréttis og jöfnunar í sem víðustum skilningi.
Hví í ósköpunum ætti ég að stuðla að því að barnið mitt troði usb-lykli inn í óræðan búk...sem skartar rauðri leðurgrímu í ofanálag?
Þetta á víst að vera griparmur þarna á snjóþotunni...einmitt!
Þessir fóstbræður eiga víst að hjálpa ungviðinu að venja sig af koppnum...og á klósettið. Ég veit það ekki.
Þetta er mjög vænleg gjöf...mjög líklegt að maður gleðji vinafólk (foreldra) og leggi línurnar í leiðinni.
Datt engum í hug að kíkja í orðabók áður en þessu kubbasafni var gefið engilsaxneskt nafn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Ábreiður
Það er afar hressandi að koma heim til sín klukkan rúmlega tvö að nóttu, upptjúnaður og með hausinn fullan af byltingarkenndum hugmyndum og fræðikenningum eftir 16 tíma vinnutörn. NBA-TV fer reyndar langleiðina með að bjarga geðheilsunni og það sem betra er; stjórnendur stöðvarinnar hafa tekið þá afar skynsamlegu ákvörðun að sýna sem minnst frá leikjum New York Knicks. Það er alveg nógu kvalarfullt að fylgjast með hnignun og niðurlægingu stórveldisins á alnetinu.
Í ljósi vangaveltna síðustu daga um ábreiður (í þessu tilfelli Bob Dylan og The Byrds) fór ég að velta málinu fyrir mér í stærra samhengi, rifja upp góðar og vondar ábreiður. Ég nenni eiginlega ekki einu sinni að staglast á lögum eins og t.d. Nothing Compares 2 U með Sinead O´Connor eða Hallelujah-söng Jeff Buckley, hvað þá þeim lögum sem þegar hefur verið minnst á.
Þetta er stutt upprifjun í handahófsröð, heilaþytur, og fjarri því að vera tæmandi upptalning.
- China Girl. David Bowie gerði í rauninni afskaplega lítið fyrir ágætt lag Iggy Pop. Fullmikil smurning.
- Sea Of Love. Upprunalega útgáfa Phil Phillips er eiginlega orðin ódauðleg (hver man ekki eftir mikilvægi lagsins í hinni ágætu hreyfimynd Fallen), en vissulega má hafa gaman af útgáfu Robert Plant og félaga í Honeydrippers.
- Cracklin´Rose. Shane MacGowan úr Pogues lyftir laginu upp í nýjar hæðir. Neil Diamond hefur mér alltaf þótt svona eins og hann sé eitthvað lasinn, svolítið sloj. Það vantar í hann allt malt.
- Tainted Love. Eins og það er nú erfitt að viðurkenna það að eitthvað sem Marc Almond kemur nálægt valdi ekki eyrnablæðingum og vitskerðingu verður Soft Cell-útgáfa lagsins að teljast í lagi. Gloria Jones setti þetta þó á plötu löngu fyrr og sú útgáfa "grúvar" betur.
- Babe I´m Gonna Leave You. Þetta er nefnilega ekki Zeppelin-lag að ætt og uppruna. Ef mér skjöplast ekki er þetta þjóðlag (höfundur þá hinn góðkunni Trad Arr) sem Joan Baez söng inn á plötu 1962. Zeppelinistar kynntust laginu í gegnum Baez.
- Blinded By The Light. Það má deila um það hvor útgáfan er betri, hjá Bruce Springsteen eða Manfred Mann´s Earth Band. Sem höfundur lagsins hefur Brúsi ákveðið forskot, en ég er ekki frá því að Manni skríði samt fram úr.
- War. Fyrst minnst er á Springsteen. Það er öllu algengara að aðrir fái lög lánuð hjá honum, en War fékk Springsteen hins vegar að láni hjá Edwin Starr. Það má deila um það hátt og lengi hvor útgáfan er betri.
- Love Hurts. Þetta er nefnilega alls ekki hreinræktað Nazarath-lag. Everly Brothers hljóðrituðu þetta löngu á undan Nazareth, en útgáfa þeirra síðarnefndu er átakanlega mikið betri.
- I Will Survive. Maður skyldi ætla að þetta væri eitt þeirra laga sem erfitt er að betrumbæta eða hreinlega flytja þannig að eftir því verður tekið. Það tókst vitleysingunum í Cake. Frábær ábreiða.
- Common People. William Shatner leikles texta lagsins, eins og hann gerir ævinlega þegar honum er hleypt inn í hljóðver, og úr verður einkennlega heillandi útgáfa þessa víðfræða Pulp-lags. Shatner er eiginlega betri en Cocker.
- Hush. Hér er annað lag sem yfirleitt er ranglega feðrað. Billy Joe Royal söng þetta inn á plötu ári á undan Deep Purple, en það var ógurlega flinkur samverkamaður hans sem samdi lagið. Það þarf ekkert að velta vöngum yfir því hvor útgáfan er betri.
- While My Guitar Gently Weeps. Jeff Healy Band gerði frábæra útgáfu þessa stórbrotna lags fyrir tæpum tíu árum.
- Smooth Criminal. Yfirleitt er frekar ólíklegt til árangurs að hræra í lögunum hans Michael Jackson, en Alient Ant Farm fær stórt prik í kladdann fyrir að fara langleiðina með að toppa upprunalegu útgáfuna.
- Alabama Song (Whiskey Bar). Doors blésu lífi í rúmlega þrítugt söngleikjalag eftir Kurt Weill með býsna góðum árangri. Lagið hefði hugsanlega dáið drottni sínum hefðu snillingurinn Jim Morrison og meðreiðarsveinar hans ekki látið til sín taka.
- Achilles Last Stand. Ég hreinlega varð að hafa Dream Theater með. Þótt það jaðri við guðlast að fikta í Zeppelin-lögum verður að gefa John Petrucci og félögum svo sem eins og eitt klapp fyrir ágæta tilburði.
Nóg í bili.
Nema...Johnny Cash gerði fína hluti með lög eins og One, Rusty Cage og síðast en ekki síst Hurt, sem hann bætti stórum.
Þá má minnast á nokkrar ömurlegustu ábreiður síðari tíma. American Pie með Madonnu er hryllilegt, Behind Blue Eyes með Limp Bizkit næstum því verra, Sittin´On the Dock of The Bay með Michael Bolton kallar á lyfjagjöf og I Love Rock´n´Roll með Britney Spears verður eiginlega til þess að manni finnst hún vera að fá það sem hún á skilið. Botninum náði svo Dolly Parton þegar henni tókst að sýna fram á það að bestu lögin geta líka hljómað hjákátlega ef vandað er til verka. Hún hlýtur að hafa ráðið heyrnarsljóan upptökumann og samviskulausan útgefanda. Stairway To Heaven með Dolly Parton. Það hljómar illa, lítur illa út á prenti og lagið sjálft er verst af öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Laugardagur, 9. febrúar 2008
Guðsonur minn...
...er eitt fegursta barn mannkynssögunnar.
Pabbi hans á afmæli í dag. Það eru nákvæmlega 28 ára síðan ég var áhyggjulaus á diskóskemmtun í Dynheimum, starði opinmynntur á pabba þegar hann kom að sækja mig (mjög töff!!!) og saman skunduðum við á fæðingardeildina. Skömmu síðar rættist langþráður draumur...ég varð stóri bróðir! Stjáni bróðir er vel gerður myndarpiltur og í kvöld verða leikin lög honum til heiðurs á Rás 2.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 28. janúar 2008
Hvernig er það...
...hver ábyrgist kórrétta talningu atkvæða í síma- og/eða netkosningum, eins og t.d. í kringum Evrópusjónina? Fulltrúi sýslumanns er viðstaddur útdráttinn í Lottóinu, svona sem dæmi...og hann tekur starf sitt alvarlega. Það borgar sig ekki að reyna að lyfta upp stemmingunni rétt fyrir Lottódrátt með íslenskri kímni og gamansögum, það þekki ég af eigin reynslu. En hver ábyrgist atkvæðatalningu í svona símakosningu? Mér er það stórlega til efs að hinn hæfileikaríki Einar Bárðarson hafi lagt það í hendur hins tónvillta hluta þjóðarinnar að velja sigurvegarann í ædolinu...og þar með næsta skjólstæðing sinn. Alls ekki illa meint gagnvart Einari, sem er drengur góður. Það stakk mig svolítið að sjá í Laugardagslögunum, sem ég fylgist nú ekki beinlínis með af áfergju, að úrslit kvöldsins berast Borgarfjarðarundrinu (í jákvæðri merkingu) á tveimur litlum blaðsneplum. Hvernig vitum við nema að þetta séu allt speglar og falskur botn, að einhver eða einhverjir séu búnir að ákveða hvaða lag verður sent til keppni? Þetta er atkvæðagreiðsla í orðsins fyllstu merkingu, því það kostar sitt að leggja lóð á vogarskálarnar...en er eitthvað gert með þessi atkvæði?
Það fór eins og mig grunaði. Dalvísk handboltahugmyndafræði, sem komið var á framfæri á hógværan og hófstilltan hátt í Bavnehöj Hallen fyrir þremur áratugum eða svo, tryggði danskan sigur á EM. Til að fagna þessum árangri munu öll munnleg samskipti í Suðurhólunum fara fram á dönsku þar til sigurvíman fer að dvína. Það gæti tekið nokkrar vikur.
Ég rétti yngri dóttur minni hjálparhönd með heimalærdóminn fyrir skemmstu. Ekki í frásögur færandi í sjálfu sér, hvað þá fréttnæmt, en mér féllust næstum því hendur þegar kom að fjórtánda kafla málfræðibókarinnar.
Þetta er kafli sem heitir Tvöfaldur samhljóði í algengum orðum. Fyrstu tvær hendingarnar eru á þessa leið: Tveir sams konar samhljóðar sem standa hlið við hlið í orði kallast tvöfaldur samhljóði. Í mörgum orðum er ekki auðvelt að finna eftir framburði hvort skrifa á einfaldan samhjóða eða tvöfaldan.
Hvaða torf er þetta eiginlega? Tveir sams konar samhljóðar sem standa hlið við hlið? Sams konar samhljóðar? Er það ekki einfaldlega einn og sami bókstafurinn, skrifaður tvisvar? Í mörgum orðum er ekki auðvelt að finna? Er ekki til gott íslenskt orð yfir það sem ekki er auðvelt? Erfitt!
Þetta er það sem lagt er fyrir æsku landsins.
Hér er hins vegar skemmtilegasta augnablik helgarinnar. Grunlausir viðskiptavinir Hagkaups í Kringlunni fengu óvæntan kaupauka í formi skemmtiatriðis sem seint verður leikið eftir. Stöðu sinnar vegna vill listamaðurinn...eða konan...ekki koma fram undir nafni. Það skal þó upplýst að um þjóðþekktan einstakling er að ræða.
Að lokum...mánudagslagið. Fátt vinnur betur á mánudagsdrunga en Christopher Walken í urrandi banastuði. Þetta er síðasti mánudagurinn minn sem almannatengill...í tilefni afmælisins í næstu viku ætla ég að færa mig heim til mömmu rúv. Njótið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 26. janúar 2008
Þessi Balic...
...er algjörlega ótrúlegur. Hann er bara...hann er bara...bara...yyyfirmannslegur!
Þessi skilmerkilega skilgreining handboltaleikmannsins á heimilinu gerði það að verkum að ég átti erfitt með að einbeita mér að fyrri undanúrslitaleiknum á EM. Ivano Balic er ekki þessi dæmigerða yfirmannstýpa, en hver er ég til að þræta við margreynda landsliðskonu?
Danir eru komnir í úrslit á EM. Loksins. Ég er algjörlega sannfærður um að uppeldisþjóð mín nýtur góðs af framlagi mínu á handboltaæfingum í Bavnehöj Hallen fyrir margt löngu. Unnsteinn Ólafsson Unnsteinssonar mætti reyndar líka og þótt línulagningu hans og framlag megi alls ekki vanmeta voru það hin fögru dalvísku íþróttafræði sem sveinninn ungi náði að koma til skila sem hafa verið að gerjast með dönskum í nokkur ár og eru farin að skila afar gleðilegum árangri.
Þetta er hugsanlega ánægðasti Dani í heimi.
Þetta er Lars Christiansen. Hann vinnur hjá skipafyrirtæki. Það vill svo skemmtilega til að nafni hans sýndi dug og þor þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Þjóðverjum.
Í kvöld mun ég leika létt dægurlög af hljómplötum í vikulegum þætti á Rás 2. Það er jafnvel inni í dæminu að leikin verði óskalög og óskum þar að lútandi má koma á framfæri hér á þessum vettvangi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 21. janúar 2008
Fjúkk...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 1. janúar 2008
Besta nýárskveðjan...
Var að fá algjörlega stórfenglega nýárskveðju í smáskilaboðaformi. Hún er harla óvenjuleg, en hæfir sendandanum fullkomlega. Hver hann er verður ekki opinberað að svo stöddu. Hann (sendandinn...þetta er ekki endilega kyngreining...enda er slíkt mjög hættulegt nú um stundir) gæti hins vegar tekið upp á því að gangast við afkvæminu í tjáningarhólfinu.
Gleðilegt blabla bla ár takk fyrir ble ble árin.
Mér hlýnaði mjög um hjartarætur. Þetta eru uppáhaldssmáskilaboðin mín það sem af er árinu.
Í tilefni tímamóta hefur verið ákveðið að velja og birta myndir ársins af ríkidæminu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Bloggvinir
- sturla
- arnim
- aronb
- atlifannar
- bennirabba
- biggibraga
- bjarney
- blues
- braids
- charliekart
- dabbi
- doddilitli
- dyrley
- egillg
- eythora
- eyvi
- feron
- forsetinn
- gaflari
- gretaro
- grumpa
- gudbjorn
- gudjonbergmann
- gudni-is
- gudnim
- gummigisla
- gunnarfreyr
- gusti-kr-ingur
- habbakriss
- hallgri
- hannesjonsson
- hannibal
- heidathord
- heimskyr
- helgigunnars
- hergeirsson
- heringi
- hjossi9
- hlekkur
- hossilar
- hvala
- hvitiriddarinn
- ingvarvalgeirs
- ithrottir
- jabbi
- jakobsmagg
- jax
- jbv
- jensgud
- jonasantonsson
- juljul
- king
- kjarrip
- kosningar
- kvistur
- latur
- laufabraud
- ljosmyndarinn
- maggi270
- malacai
- markusth
- moppi
- nesirokk
- olafurfa
- orri
- raggipalli
- runarhi
- rungis
- sax
- saxi
- sedill
- seth
- sigmarg
- skallinn
- steinibriem
- stormsker
- sven
- svenko
- svenni71
- sverrir
- swaage
- thordursteinngudmunds
- tilfinningar
- vg
- x-bitinn
- ylfamist
- 730
- bestfyrir
- pjeturstefans
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar