Föstudagur, 28. desember 2007
Breiðhyltingar...
...sveitungar mínir...eru sumir hverjir mjög heilbrigðir þegar kemur að jólagluggaskreytingum. Mjög.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 22. desember 2007
Hátíð í bæ!
Þetta er jólagjöf snorrans til lesenda. Allra þriggja. Hér er myndband af einu glæsilegasta marki sem skorað hefur verið á íslenskum handboltavelli og listamaðurinn er ekki bara að skora ótrúlegt mark; hann er líka að afsanna þá kenningu að þeir sem kenna séu þeir sem ekki kunna!
Ef einhver þekkir spengilegan markaskorarann getur viðkomandi átt von á hugljómun og jákvæðri andlegri styrkingu að launum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 18. nóvember 2007
Sonurinn lætur sér fátt um finnast
Númi Snorrason fylgdi föður sínum í vinnuna í kvöld. Faðirinn gerði sér ákveðnar væntingar/vonir um að t.d. flugmóðurskipið í Efstaleitinu myndi heilla soninn, að tækin og tólin vektu aðdáun og athygli og að fumlaus handtök veittu honum innblástur til afreka.
Númi ákvað hins vegar að leggja sig fljótlega eftir að Sigvaldi lauk lestri tíufrétta.
Í baksýn sést glitta í annan af tveimur EMT plötuspilurum Ríkisútvarpsins, sem í sína tíð þóttu einhver glæsilegustu og mikilvægustu tækin í eigu stofnunarinnar. Þeir voru jafnvel taldir standa tveimur eða þremur tiltölulega áhugalitlum dagskrárgerðarmönnum jafnfætis þegar hlutum var raðað eftir mikilvægi og kostuðu álíka mikið og lítil vatnsaflsvirkjun. Í dag þjóna þeir svipuðu hlutverki og nýjasta hillusamstæðan frá IKEA.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 16. nóvember 2007
Á degi íslenskrar tungu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 3. nóvember 2007
Illa farið með gott nafn!
Fyrsta sjónvarpstækið sem ég tók ástfóstri við kom inn á heimilið 23.febrúar 1980. Dagsetninguna man ég ekki vegna platónsks ástarsambands við tækið eingöngu; ég man hana líka vegna þess að sjónvarpið var sótt með viðhöfn nákvæmlega viku eftir að Stjáni bró kom heim af fæðingardeildinni. Þetta var tími nýjunga og breytinga í Hjallalundinum. Ég er ekki frá því að um stundarsakir hafi mér jafnvel þótt nýtt litasjónvarp merkilegra og áhugaverðara en lítil organdi athyglissuga, jafnvel þótt sugan þætti líkjast mér í útliti. Sjónvarpið var enda gullfallegt, viðarlitað með svörtu stjórnborði, tónaði vel við panel-klæddan stofuvegginn og gaf frá sér dásamlega skýra og góða mynd. Engin var fjarstýringin, enda voru það bara skipstjórar og læknar sem gátu leyft sér slíkan munað á þessum tíma, en það skyggði nákvæmlega ekkert á gleðina. Sjónvarpið atarna færði mér ófáar gleðistundir og æskuminningar; einhverra hluta vegna standa upp úr, fyrir utan bíómyndir og Monty Python í gegnum myndbandstækið, tónleikar með The Police, Joe Jackson og svo auðvitað "tónleikakvöldið góða" á RÚV þar sem m.a. komu fram Meatloaf, Foreigner og Saga. Þeir sem höfðu vit og rænu til að horfa á þá ágætu útsendingu, sem þótti reyndar svolítið merkileg vegna þess að svona útsendingar voru á þessum tíma með öllu óþekktar í sjónvarpi allra landsmanna, muna það flestir enn þann í dag og ræða sín á milli af væntumþykju og virðingu. Sjónvarpstækið góða stóð af sér ófáa flutninga og á stundum óblíð handtök; það datt t.d. einu sinni beint á skjáinn á flísalagt gólfið á Þelamörk og var vart hugað líf. Það stóð ekki bara af sér hnjask heldur líka tækninýjungar og gylliboð, oftar en ekki var freistandi að kaupa stærra tæki með betri skerpu...og fjarstýringu. Aldurinn fór að lokum að segja til sín og með tíð og tíma átti tækið orðið erfitt með að greina á milli hinna fjölbreyttu lita sem lífið hefur upp á að bjóða. Í aðdáunarverðri tilraun sinni til að standast tímans tönn fór sjónvarpið að sýna flest í grænum lit og það varð til þess að félagarnir hættu að nenna að horfa á boltann hjá mér; þeir sögðu að liðin væru öll í grænum búningum!
Svo fór að lokum að grænt yfirbragð tilverunnar varð einum of þungbært og gamla góða tækið fékk langþráða hvíld eftir tæplega 17 ára þjónustu. Þess er sárt saknað.
Ástæðan fyrir því að ég rifja stuttlega upp feril þessa ágæta sjónvarpstækis, fyrsta litasjónvarps fjölskyldunnar, er sú að tækið var af tegundinni Luxor. Luxor var sænskur raftækjaframleiðandi, þekktur fyrir vandaða og góða vöru (pabbi keypti helst skandinavisk tæki, sbr. Tandberg-tækið sem hann segir enn þann dag í dag að sé betra en rándýrt Pioneer-heimabíóið mitt). Nokia keypti og kokgleypti Luxor-fyrirtækið á níunda áratugnum og merkið hvarf af markaði. Nafnið Luxor hefur verið jákvætt hlaðið í mínum huga; þetta var jú tækið sem opnaði nýjar víddir og reyndist vel. Það hefur ekkert með borgina Luxor í Egyptalandi að gera.
Nú er búið að taka þessa jákvæðu minningu og valta yfir hana. Mér varð það á í gærkvöldi að skipta stuttlega yfir á Loga í beinni, þar sem sönghópurinn Luxor gerði heiðarlega tilraun til að rýja mig trúnni á allt hið góða í manninum. Loftnetið reyndi m.a.s. að fleygja sér niður í grýtta gjótu við húsgaflinn. Hverjum dettur í hug að þetta teljist flott, áhugavert að skemmtilegt? Það er áhyggjuefni að á landinu bláa skuli finnast fimm ungir menn sem eru tilbúnir til að fara í vibrato-keppni innbyrðis og gersneyða ágæt dægurlög allri tilfinningu í leiðinni. Þetta hlýtur að vera enn eitt höfðatöluheimsmetið. Er fræðilegur möguleiki að setja einhvers konar lög til að koma í veg fyrir þetta?
Ég ætla, þrátt fyrir þessar tilraunir markaðsafla til að spilla æskuljómanum, að einbeita mér að því að halda Luxor-nafninu jákvæðu. Luxor er sjónvarp...ekki hópur meintra söngvara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 2. nóvember 2007
Þá hló...
...ég!
Fátt er fyndnara í þessum heimi en augljóst ofmat á eigin ágæti. Afneitun í bland við téð ofmat fer líklega næst því að komast skörinni ofar á listanum yfir lífsins lystisemdir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 29. október 2007
Speglar og falskur botn!
Ég hnaut um þessa forsíðufrétt um helgina. Fyrirsögnin ein og sér fyllti mig gleði og trú á mannkynið. Fegurðin og manngæskan drupu af þessu óvænta útspili Marels og ég þurfti ekki að lesa fréttina til enda, fyrstu átta orðin veittu mér nægan innblástur.
Í gærkvöldi lagðist ég á koddann minn mjúka, lét hugann reika og reyndi að komast að því hvernig best væri að koma óvæntum kaupauka í nyt. Ég sá það jafnvel fyrir mér að geta keypti Mýrina á dvd-diski, en hingað til hef ég veigrað mér við því. Í auglýsingunni er nefnilega sagt að þetta sé stærsta mynd íslenskrar kvikmyndasögu og ég hafði/hef efasemdir um að hún rúmist innan um aðrar myndir heimilsins. Óvæntur auður sló á þessar áhyggjur. Ég hlakkaði líka mikið til að fá að vita hver launakjör mín hjá Marel væru, hvernig tilvera mín ein og sér væri verðmetin í evrum, og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri besta fyrirtæki í heimi. Ég æfði mig í að umreikna úr evrum í krónur.
Ég hringdi í Marel í morgun til að koma bankaupplýsingum, taumlausri aðdáun og þakklæti á framfæri. Viðbrögðin ollu vonbrigðum og jafnvel svolitlum sárindum. Líklega hefði verið hollara að hemja gleðina og lesa aðeins lengra. Ég fer samt ekkert ofan af því að Marel er flott fyrirtæki.
Einsmellur dagsins er Now That We Found Love með Heavy D & The Boyz.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 24. október 2007
Í þá gömlu góðu daga...
Þetta skrifast alfarið á Ingvar. Það var hann sem hóf þessar einsmellungsvangaveltur!
Þar sem ég ligg heima og vinn að því af heilindum að losa mig við norskættað flensuskot kann að vera að ég hafi of mikinn tíma til að leita uppi dásamlegar fortíðarperlur. Hér eru þrjár slíkar.
Pop Muzik með M...sem í rauninni mætti skilgreina sem einsmannshljómsveitina Robin Scott. Reyndar hafði hann sér til fulltingis náunga sem heitir Wally Badarou og er einn mesti hljóðgervlaspekingur samtímans, var kallaður fimmti meðlimur Level 42 og hefur unnið með ekki ómerkara fólki en Joe Cocker, Mick Jagger, Talking Heads, Foreigner, Power Station og Marianne Faithful...svona til að nefna nokkur dæmi. Myndbandið við lagið þótti framúrstefnulegt og flott, en áhugaverðustu kaflar þess eru þrjú örstutt myndbrot sem líklega hafa farið framhjá flestum. Þessi stuttu brot fela í sér gagnrýni, boðskap og spádóm sem átti heldur betur eftir að rætast. Í myndbandinu dansa og syngja föngulegar meyjar með og í kringum Scott og látið er í veðri vaka að þetta séu bakraddasöngkonurnar. Þrisvar bregður svo fyrir ósköp "venjulegri" konu sem syngur bakraddalínurnar og þar með er það í rauninni opinberað að myndbandið er að stórum hluta speglar og falskur botn. Scott var að gagnrýna sýndarmennskuna og vitleysisganginn í tónlistargeiranum og nokkrum árum síðar fengu svo "sveitir" á borð við Boney M og Milli Vanilli skell á beran bossann...fyrir það einmitt að setja hina eiginlegu söngvara aftur fyrir tjaldið og láta "huggulegra" fólk um það að afla vinsælda.
Hér eru svo tvö lög hljómsveitar sem átti tiltölulega stutta lífdaga; þessi lög náðu skammvinnum en ansi einbeittum vinsældum. Svo mikil var pressan að spila þetta í unglingaútvarpsþætti á RÚVAK síðla árs 1986 að ég greip til þess ráðs að fá plötuna lánaða í H-100. Plötuna...ekki diskinn.
Hollywood Beyond átti það sameiginlegt með M að vera í rauninni einsmannshljómsveit, en hvað varð um þennan ágæta mann veit ég ekki. Þess ber að geta að síðara lagið heitir No More Tears...ekki No More...og snubbóttur endir er ekki mér að kenna.
Það má alveg skemmta sér yfir þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 23. október 2007
Einsmellungar...
Hið skarpgreinda gítargoð er að velta fyrir sér einsmellungum, one hit wonders, í einni af fjölmörgum könnunarferðum sínum um margbreytileg viðfangsefni mannshugans.
Þessar pælingar rifjuðu upp löngu horfna tóna, sem í sína tíð þóttu til eftirbreytni og fóru langleiðina með að draga þaulsetna ofurtöffara út á dansgólfið í Dynheimum. Ó, hve lífið var einfalt í þá daga.
Mér þótti svo mikið til þess koma að finna þessa tímalausu snilld á hinu alltumlykjandi alneti að ég ákvað að setja þessi tvö myndbönd hér inn, bæði til gagns en einnig nokkurs gamans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 19. október 2007
Bikarinn til Bergen!
Hið frækna knattspyrnulið Brann frá Bergen, hvar þrír vörpulegir knattspyrnumenn frá landinu bláa eru í lykilhlutverkum, er um það bil að tryggja sér norska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 44 ár. Bærinn er algjörlega knattspyrnuóður, fólk gisti fyrir utan verslunarkjarnann í miðborginni í miðri viku til að tryggja sér miða á síðasta heimaleikinn og Brann-búðin í kjarnanum minnir á brauðbúð í A-Evrópu á tímum kalda stríðsins. Þrátt fyrir vöruskort tókst mér að finna þar fína Brann-peysu, sem ég keypti til að vega upp á móti vonbrigðunum sem eigið landslið veldur. Gott ef ég er ekki bara orðinn nokkuð spenntur fyrir leik Norðmanna og Tyrkja, þar sem Hareide-gumar geta tryggt sér sæti á EM. Reiknað er með að rúmlega 100 þúsund sálir heiðri miðborg Bergen með nærveru sinni á laugardag og búið er að brugga sérstakan meistarabjór. Í morgun birtist í Bergensavisen viðtal við mann og konu sem fæddust daginn eftir að Brann vann meistaratitilinn síðast, 14.október 1963. Líklega munu þó ekki birtast fleiri viðtöl við Dag Fölling og Randi Merete Ramberg á næstunni, þau muna nefnilega ekkert eftir stemmningunni síðast þegar Brann varð meistari.
Fyrir utan hótelið okkar, sem er haganlega staðsett í miðri miðborginni, er búið að setja upp einhvers konar bás...fyrir æfingahjól. Þar koma Brann-istar saman í smærri hópum og "hjóla gullið heim", eins og þeir kalla það. Það á s.s. að halda snúningi á hjólunum þar til titilinn er í höfn. Þótt flestir reikni með því að titlunum verði landað á laugardag er möguleiki á að það dragist aðeins á langinn og þá hlýtur þetta að verða einhvers konar álfumet í kaloríubrennslu.
Það sem vakti athygli skarpgreinda Íslendinga var að maðurinn á auglýsingaspjaldinu sem prýðir þennan ágæta bás er í World Class-bol. Ekki nóg með það...heldur eru hér uppi vangaveltur um að umræddur maður sé bakari og hafi á einhverjum tímapunkti starfað á Húsavík. Nei, það er ekki verið að rugla honum saman við Andra Sigþórs.
Amy Winehouse gistir líka á þessu hóteli. Einhverjir þeirra sem ég hef verið að dedúast með í vikunni urðu vitni að handtöku hennar í nótt. Þeim fannst frekar lítið til söngdívunnar koma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Bloggvinir
- sturla
- arnim
- aronb
- atlifannar
- bennirabba
- biggibraga
- bjarney
- blues
- braids
- charliekart
- dabbi
- doddilitli
- dyrley
- egillg
- eythora
- eyvi
- feron
- forsetinn
- gaflari
- gretaro
- grumpa
- gudbjorn
- gudjonbergmann
- gudni-is
- gudnim
- gummigisla
- gunnarfreyr
- gusti-kr-ingur
- habbakriss
- hallgri
- hannesjonsson
- hannibal
- heidathord
- heimskyr
- helgigunnars
- hergeirsson
- heringi
- hjossi9
- hlekkur
- hossilar
- hvala
- hvitiriddarinn
- ingvarvalgeirs
- ithrottir
- jabbi
- jakobsmagg
- jax
- jbv
- jensgud
- jonasantonsson
- juljul
- king
- kjarrip
- kosningar
- kvistur
- latur
- laufabraud
- ljosmyndarinn
- maggi270
- malacai
- markusth
- moppi
- nesirokk
- olafurfa
- orri
- raggipalli
- runarhi
- rungis
- sax
- saxi
- sedill
- seth
- sigmarg
- skallinn
- steinibriem
- stormsker
- sven
- svenko
- svenni71
- sverrir
- swaage
- thordursteinngudmunds
- tilfinningar
- vg
- x-bitinn
- ylfamist
- 730
- bestfyrir
- pjeturstefans
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Fólk
- Herra Hnetusmjör fagnar átta árum edrú
- Katrín prinsessa laumaðist á fund í Windsor-kastala
- Endurgerði þekkt kvikmyndaveggspjald buxnalaus
- Liam Payne borinn til grafar
- Elton John mætti allnokkrum kílóum léttari
- Fyrrverandi Playboy-kanína fær ekki aðgang að stefnumótaforriti
- Jarðarför Liams Payne í dag
- Vaknar grátandi af söknuði um miðjar nætur
- Náði botninum við dánarbeð ömmu sinnar
- Aldís Amah með hlutverk í Hallmark-jólamynd
Viðskipti
- Indó lækkar vexti
- Hlutverk Kviku að sýna frumkvæði á bankamarkaði
- Þjóðverjar taka við rekstri Fríhafnarinnar
- Trump lyftir Bitcoin-verði í hæstu hæðir
- Ekki svigrúm til frekari launahækkana
- Sækja fjármagn og skala upp
- Óttast að fólk fari aftur að eyða peningum
- Innherji: Frekari uppsagnir en nú tveir forstjórar
- Eigið fé er dýrasta fjármögnunin
- Skoða skráningu á Norðurlöndum