Leita í fréttum mbl.is

Á meðan...

...allt virðist vera að gerast; massívar kjaftasögur um forstjóraskipti hjá Símanum, Britney orðin ástfangin, Tottenham að ná mælanlegum árangri, þingmenn keppast við að gera í brók, Baugsmál verða meira og meira spennandi og hugmyndir um háskóla á Keflavíkurvelli eru ennþá inni í myndinni er ég með hugann við...bjúgu.

Sem ungur og upprenandi þjóðfélagsþegn, grunlaus um gefandi verkefni og gleðina sem beið mín handan við hornið, tók ég það að mér tímabundið að framleiða bjúgu.  Þetta var eitt ógeðfelldasta starf sem ég hef fengist við og er þó af ýmsu að taka.  Vinnustaðurinn sjálfur var ekkert svo slæmur í sjálfu sér, ég var að safna peningum til að kaupa skínandi fagra sjálfrennireið og setti það ekki fyrir mig að fást við hin ýmsu verk.  Bjúgnaframleiðslan markaði djúp spor í sálina og eftir fyrstu framleiðslulotu ákvað ég að skilgreina bjúgu aldrei aftur sem mat.  Aldrei.  Ég geri engum þann óleik að birta lýsingar á takteringunum við framleiðsluna, en á svipuðum forsendum forðast ég ákveðnar fisktegundir, svið og slátur.
Í dag læddist þessi ákvörðun um að láta af bjúgnaáti aftan að mér.  Ég hef hingað til skilgreint hana sem eina þá bestu ákvörðun sem ég hef tekið á ferlinum, ekki síst vegna þess að hún hefur forðað mér frá kvöl, pínu, sárum minningum og hreinlega vondum mat.  Ég var á fundi í hádeginu í dag og fundarhaldarar, góðborgarar af bestu gerð, buðu til matar.  Fullur tilhlökkunar gekk ég á garðann, en mér brá hressilega þegar sullandi sveitt bjúgu reyndu að ná við mig augnsambandi.  Ég þurfti á hraða ljóssins að taka ákvörðun; móðga hina góðu bjóðendur eða rifja upp leiðinleg kynni við þetta fyrirbæri sem sumir telja lostæti.  Verandi af sjómannskyni ákvað ég að láta mig hafa það.  Ég bað um lítinn skammt um leið og ég skellti flötum lófa á bumbuna í táknrænum tilgangi og drekkti svo kvikindunum í meðlæti.  Ég hef aldrei á ævinni borðað eins mikið af rauðrófum, ég var sannast sagna farinn að tárast og faldi það með gamla "fékk eitthvað í augað"-bragðinu, og líklega hef ég sett einhvers konar met í neyslu dverggulróta.  Ef ekki Evrópumet þá Íslandsmet.  Alla vega landsfjórðungsmet.  Þetta verður að teljast nokkuð vel af sér vikið þegar haft er í huga að ég reyndi að halda niðri í mér andanum sem mest ég mátti, til að draga úr áhrifum bjúgnanna, og svona eftir á að hyggja kann vel að vera að ég hafi misst meðvitund í skamma stund. 
Þetta var í fyrsta sinn í rúm 20 ár sem ég borða bjúgu.  Þetta var, að því gefnu að ég eigi það ekki á hættu að móðga gott fólk, fræga leikara og/eða þjóðhöfðingja með því að afþakka eða sniðganga, í síðasta sinn sem ég borða bjúgu.

Þessi merkilegi tónlistarmaður á afmæli í dag.  Hann er einsmellungur.

bday

 

 

 

Getraun dagsins er...hver er hann, hverra manna og hvað var það sem gerði eina smellinn hans eftirminnilegan og sérstakan?


Hrós dagsins fær Coca Cola Zero.  Ekki auglýsingarnar, heldur drykkurinn sjálfur.  Auglýsingaherferðin var hörmuleg.  Drykkurinn er fínn.  Loksins er kominn sykurlaus gosdrykkur sem bragðast eins og hann innihaldi heilt tonn af sykri.  Gott gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Humm og hvað hefur þú fyrir þér í því að þú myndir móðga góðborgarana með því að borða ekki bjúgu.... og ef þú hefðir gert það hvað væri þá svona slæmt við það?  Æ ég er ekki í vinnunni.  Gleymdu þessu.

Hafrún Kristjánsdóttir, 15.3.2007 kl. 22:33

2 identicon

Ég giska á að einsmellungurinn sé einhver af DeBarge fjölskyldunni. Meira veit ég ekki.

Elías Þór (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 16:59

3 Smámynd: Snorri Sturluson

Nei, ekki er hann hinu stórmerka DeBarge-kyni.  Faðir þessa manns er stórmógúll í tónlistarheiminum og í smellinum hans kemur við sögu einn frægasti tónlistarmaður síðari tíma. 

Snorri Sturluson, 16.3.2007 kl. 21:03

4 Smámynd: Hugarfluga

Pabbi hans stórmógúll segirðu? Berry Gordy? Er ekki Rockwell sonur hans? Er þetta Rockwell, sem söng"Somebody's watching me" með Michael og Jeramine Jackson?

Hugarfluga, 16.3.2007 kl. 23:43

5 Smámynd: Sardinan

Jesús minn ég táraðist við lesturinn á þessum pistli.

Já og maðurinn þarna heitir pottþétt Siggi. Finn það í beinunum á mér.

Zero er sull, light í mína krús takk.

Sardinan, 16.3.2007 kl. 23:55

6 identicon

oh well better late then never .. er þetta ekki Sly Stone?

Óli (oftast kenndur við Element)

audioholic (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 20:05

7 Smámynd: Ólafur Björnsson

dóh! sá svo í næstu færslu að ég hafði raaaaangt fyrir mér

Ólafur Björnsson, 30.3.2007 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband