Leita í fréttum mbl.is

Buff...

...er frábær hljómsveit.  Hún lyfti Söngkeppni framhaldsskólanna upp á æðra plan. 
Merkilegt annars með þessa keppni, sem er ljómandi skemmtileg, að þeir og þær sem náð hafa tónlistarframa af einhverri sort í kjölfar hennar hafa sjaldnast raðað sér í efstu sæti keppninnar sjálfrar.

Tölvan mín tók upp á því um daginn að birta áður óþekkt tákn í stað hinna hefðbundnu bókstafa við liprandi léttan og leikandi áslátt.  Mér datt fyrst í hug að þetta væri merki "að ofan"; að mér væri ætlað það stóra og mikla hlutverk að koma á samskiptum milli jarðarbúa og geimvera...að verur hefðu plantað samskiptakerfi í tölvunni minni.  Þegar ég fór að velta málinu aðeins fyrir mér mundi ég svo að ég hafði geymt tölvuna á gólfinu eitt kvöldið og ástæða þessarar táknmyndunar er líklega álitsgjöf þessa unga manns á gripnum...

Tumi

Hann hefur líklega haldið að IBM-inn væri einhver ódýr og hægfara garmur og lyft fæti.  Þetta kostaði reyndar viðgerð, sem ég svo nýtti til uppfærslu, og nú get ég stýrt tölvukerfi Pentagon, lestarkerfi London og miðstýrt útrás íslensku bankanna frá heimili mínu.  Það er allt í lagi að taka það fram að þjónustan hjá Nýherja var glimrandi góð.

Hér er flugmóðurskipið í hljóðveri á Rás II í allri sinni dýrð...eða því sem næst.

Móðurskip

Ég varð eiginlega að taka aðra mynd þar sem sjálfskipaðir greindarhólar drógu það í efa að á "nýja" mixernum væru fleiri takkar en hinum eldri.

Lauflétt getraun í tilefni dagsins.  Spurt er um hljómsveit.  Hún er bresk og varð í rauninni til með þeim hætti að gítarleikarinn tók við búi og skyldum annarrar sveitar, hvar hann sló á strengi, og vantaði nýja meðreiðarsveina.  Hann tók reyndar bassaleikarann úr hinni sveitinni með sér, en hann hætti fljótlega og við bassanum tók maður sem hafði séð um strengjaútsetningar á síðustu plötu hljómsveitarinnar sem var í andaslitrunum.  Upphaflega stóð til að ráða trommarann úr Procol Harum og söngvara og gítarleikara, sem líklega enn þann dag í dag sér eftir því að hafa ekki þáð boðið.  Þessi ágæti maður gerði svo endanlega í brók þegar hann mælti með öðrum söngvara sem hann taldi nokkuð efnilegan og sá tók boðinu fagnandi.  Nýi söngvarinn benti svo á trommara, sem var ráðinn og úr varð ein magnaðasta sveit allra tíma.  Hún spilaði að vísu til að byrja með undir öðru nafni, enda varð hún að klára tónleikaferðalag sem "undanfarinn" hafði lofað...og þetta nafn vísar ansi hraustlega í fyrri sveitina.

Hvað heitar þessar tvær hljómsveitir...þ.e.a.s. aðalsveitin og undanfarinn?

Bónusspurning...hver er sagan á bak við nafn hljómsveitarinnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð

Mig langar að skjóta á að þetta hafi verið Bítlarnir, bara til að vera með...

Davíð, 15.4.2007 kl. 01:42

2 Smámynd: Snorri Sturluson

Njet...ekki The Beatles.

Snorri Sturluson, 15.4.2007 kl. 01:53

3 Smámynd: Jón Kjartan Ingólfsson

The New Yardbirds, Led Zeppelin og var ekki þetta með nafnið að reyna að fá einhverja mótsögn - létt og þungt - blý loftfar. Sem sé í höfuðið á Zeppelin loftskipunum og svo Led sem furðuritháttur á lead?

Jón Kjartan Ingólfsson, 15.4.2007 kl. 02:00

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

The New Yardbirds hituðu upp fyrir Iron Butterfly eitthvað eins og daginn áður en þeir skiptu um nafn. Iron Butterfly - Led Zeppelin - eitthvað sem flýgur og málmur. Stolin hugmynd?

Annars er víst sagt ef eitthvað klikkar, til dæmis ef brandari missir marks, að þetta hafi "gone down like a lead balloon". Gæti verið hugmyndin að baki nafninu, en hvað veit ég, ég er bara karlmaður og kann því ekki að klæða mig.

Best að deila með ykkur sögu, sem ég heyrði;

John Paul Jones var víst síðasti maðurinn sem sá Bonham á lífi. Þeir snæddu saman morgunverð á einhverju hóteli nokkrum tímum áður en trymbillinn stórgóði hætti endanlega í hljómsveitinni. Ekki fylgdi sögunni hvað bassaleikarinn fékk sér, en morgunmatur Bonham samanstóð af ostborgara, frönskum, nokkrum bjórum og helling af vodkaskotum. Eftir að hafa klárað þennan holla og staðgóða morgunmat sagði hann víst "that´s breakfast" og þurrkaði sér um munninn.

Og datt um koll og dó.

Ingvar Valgeirsson, 15.4.2007 kl. 19:45

5 Smámynd: Snorri Sturluson

Genetíska greindin lætur ekki að sér hæða!  Jón Kjartan er greindur maður.

Zeppelin var það heillin...en bónusspurningin var reyndar brelluspurning.  Það er nefnilega ekki til opinber skýring á þessu nafni, en tvær lífseigustu kenningarnar eru þessar:
Page hafði í hyggju að búa til súpergrúppu upp úr Yardbirds og hafði hug á því að ráða John Entwistle og Keith Moon úr The Who til að spila með sér og Jeff Beck og meðal söngvara sem nefndir voru til sögunnar var Donovan.  Entwistle á að hafa sagt þegar hann heyrði þessa hugmynd að svona hljómsveit myndi floppa eins og "lead zeppelin" (sbr. lead balloon).  Hin kenningin er sú að fær og flinkur tónlistarskríbent á að hafa sagt, eftir að hafa heyrt í Led Zeppelin, að það væri álíka líklegt að þeir yrðu vinsælir og það væri að blý-loftfar, lead zeppelin, tækist á loft.
Hvort önnur sagan er sönn skal ósagt látið...altént tóku þeir a-ið út úr "lead" til að forðast það að skarpgreindir Ameríkanar bæru nafnið fram "leed zeppelin".

Og hana nú.

Snorri Sturluson, 15.4.2007 kl. 20:53

6 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

En fyrst þér finnst Buff frábær sveit, sem hún vissulega er, hvernig væri að reyna að toga í spotta í úbartinu svo þeir heyrist einhverntíma á öldum ljósvakans. Miðað við vinsældir sveitarinnar meðal almennings er ljósvakaskorturinn hreint fáránlegur og ég man bara hreinlega ekki eftir að hafa heyrt eitt einasta lag með sveitinni á Rás 2 nokkurntíma.

Geturðu ekki snúið upp á handlegg einhvers þarna?

Ingvar Valgeirsson, 15.4.2007 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband