Leita í fréttum mbl.is

Sturluson yngri...

...og íbúð! 

Bloggfríið átti að vera tíðindalítið og rólegt.  Margt fer öðruvísi en ætlað er.

Fyrir það fyrsta...var fjárfest í íbúð.  Flunkunýjum salarkynnum á glimrandi fínum stað í Breiðholtinu.  Ég var reyndar ekki á leið úr Hafnarfirði, en þetta var einfaldlega of gott til að sleppa því.  Ekki er loku fyrir það skotið að vinum og vandamönnum verði á komandi misserum boðið í snæðing og skoðunarferð.

Hér stendur Inga Rún fyrir utan slotið.  Myndin er tekin nokkrum andartökum eftir að hún hafði veitt samþykki sitt fyrir kaupunum.

IMG_0291 

Þessi ráðahagur kallar reyndar á drastiskar breytingar á persónulegum högum.  Í fyrsta sinn í tólf ár verður lögheimilið í höfuðborginni og nú þarf að fara að skoða hið pólitiska litróf frá öðru sjónarhorni.  Viðskiptabanki síðustu áratuga fékk líka baugfingurinn (nýtt trikk sem Habban hefur miklar mætur á!).  Þjónustan hjá Kaupþingi er hins vegar til fyrirmyndar í alla staði.

Í annan stað...fjölgun í fjölskyldunni.  Númi Snorrason er mættur til leiks.

IMG_0316b

Hann á reyndar ekki langt að sækja útlitið og greindina.  Númi er nefnilega frændi Tuma.  Þeir eru ágætir saman.

IMG_0308b

Það stóð ekki til að fjölga svona í fjölskyldunni...alveg strax.  Númi tók þetta hins vegar á svipuðum nótum og Tumi gerði á sínum tíma.  Hann valdi okkur eiginlega frekar en að við veldum hann.  Hann var sóttur daginn eftir.


Íbúðakaupunum hafa fylgt óteljandi verslunarferðir.  Það þarf að skoða hlutina vel, vega og meta.  Allt í einu eru viðmót og þjónustulund verslunarfólks farin að skipta mig meira máli en nokkru sinni.  Ég höndla það ekki að nýfermdur og frekar vitgrannur afgreiðslumaður reyni að sannfæra mig um það hvernig framtíð minni sé best borgið. 

Steini vinnufélagi, stórsnillingur og frændi, hefur einstakt lag á að draga fram það besta í fólki.  Fólk sem sinnir þjónustustörfum er þar engin undantekning.  Hann keypti sér t.d. nýtt sjónvarp fyrir tæpu ári, neyddist til að fara með það í viðgerð rétt um það bil sem Eiríkur gerði í brók í Finnlandi og þurfti að lokum að skipta tækinu út.  Þetta vafstur skilaði honum sex nýjum bíómyndum á dvd-diskum.  Það er afrek.
Steini sá auglýsingu frá Öryggismiðstöðinni í blöðunum um daginn, þar sem þess var getið að viðskiptavinir fengju tvo mánuði án endurgjalds.  Hann hringdi í téð fyrirtæki.  Samtalið var eitthvað á þessa leið...lauslega þýtt og endursagt:

Steini: Góðan dag, ég sá auglýsingu frá ykkur í blaðinu...tveir mánuðir frítt...leist svo ljómandi vel á þetta.
Þjónustufulltrúi: Já, þetta er gott tilboð.  Við erum að fá fín viðbrögð við auglýsingunni.
Já, veistu, ég er bara að hugsa um að taka þessu tilboði.
Já, alveg sjálfsagt.  Hvenær myndi henta þér að tæknimaður kæmi til þín til að setja búnaðinn upp.
Það er algjör óþarfi, ég er með heimavörn frá ykkur.
Þögn
Ha?  Ertu með heimavörn frá okkur? En...en...bíddu...
Já já, ég er með allt sem þarf.  Mig langar bara að fá tvo endurgjaldslausa mánuði, eins og auglýst var.
En...en...sko...það eru reyndar bara nýir viðskiptavinir sem fá fyrstu tvo mánuðina fría.
Nú jæja, þess er ekki getið í auglýsingunni.  Ertu alveg viss?
Já, ég er alveg viss um það.
Ja, ég vil nú eiginlega bara fá það sem auglýst er.  Það er ekki mitt mál hvernig þið orðið auglýsingarnar ykkar, það stóð ekkert um nýja viðskiptavini.
Nei, en það er nú samt þannig.  Það eru bara nýir viðskiptavinir sem fá tvo mánuði fría.
Hmmm...þú segir nokkuð.  Heyrðu, þá ætla ég að segja samningnum mínum upp.  Þú sendir þá væntanlega mann til að taka kerfið niður, er það ekki?
Ööööhhh...jú, ég myndi gera það.
Svo ætla ég reyndar að gerast viðskiptavinur strax aftur.  Þá verður kerfið sett upp aftur og ég fæ tvo mánuði frítt sem nýr viðskiptavinur, er það ekki?
Ööööhhh...jú...jú...sem nýr viðskiptavinur.
Væri þá ekki gáfulegra að við spörum okkur báðir vesen og tilfærslur, hreyfðum ekkert við kerfinu en ég fengi tvo mánuði fría...eins og sagði í auglýsingunni.
Ööööhhh...andartak.
Biðtónlist í símanum. 
Sæll aftur.  Heyrðu, við leysum þetta þá svona.  Við hreyfum ekkert við kerfinu hjá þér, en þú færð tvo mánuði án þess að borga...eins og sagt var í auglýsingunni.
Þið eruð ágætir.  Þakka þér kærlega fyrir þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Til lukku með nýja íbúð og nýjan fjölskyldumeðlim.

Svo má taka fram að ég gerði meira í brók en nokkurntíma Eiki í Finnlandi við lestur síðari hluta þessarar færslu.

Ingvar Valgeirsson, 9.7.2007 kl. 17:48

2 Smámynd: Rúnarsdóttir

Ég þekki Steina ekki en þetta var snilldar-move, kræst hvað ég gæfi fyrir snefil af slíkri einurð.

Rúnarsdóttir, 9.7.2007 kl. 23:13

3 Smámynd: Snorri Sturluson

Takk takk.  Mér er efst í huga...þakklæti til þjóðarinnar.  Og Kaupþings.

Þorsteinn er mikill meistari og af honum eru til margar og góðar sögur því til staðfestingar.  Einhvern daginn á ég kannski eftir að segja t.d. örsöguna af samtalinu sem hann átti við Svanhvíti, konu sína, yfir kvöldverði á fögru sumarkvöldi.

Tók enginn eftir undurfögru undirspili á myndbandinu af Núma?

Snorri Sturluson, 10.7.2007 kl. 02:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband