Leita í fréttum mbl.is

Hermt er...

...að fyrir margt löngu hafi ein frægasta og vinsælasta hljómsveit alheimsins haft í hyggju að skunda til lands elds og ísa til tónleikahalds.  Aðeins örfáir útvaldir vissu af þessum fyrirætlunum, rík áhersla var lögð á að enginn gaspraði tóma tjöru út í loftið og því voru þeir sem ráðnir voru til að undirbúa jarðveginn hér heima valdir af kostgæfni.  Þrátt fyrir að hafa staðist ströngustu próf og lofað öllu fögru missti einn vitringanna sannleikinn út úr sér kvöld eitt þegar óminnishegri sótti að honum.  Þeir sem til heyrðu urðu agndofa og allsgáðir á svipstundu, svo hissa reyndar að þeir náðu ekki að láta boðin ganga og sagan komst aldrei almennilega af stað.  Tónleikahaldarar (hugsanlegir og/eða væntanlegir) náðu að takmarka skaðann, sagan gekk reyndar manna á milli í nokkur ár en ávallt var henni tekið sem hverri annarri lygasögu.

Nú virðist hins vegar vera að koma í ljós að fótur var fyrir þessu öllu saman.  Sveitin víðfræga ku hafa verið að melta heimsókn á hjara veraldar og undirbúningsvinna var á veg komin.  Búið var að bjarga ýmsu smálegu og stærri verk voru í bígerð þegar sveitin leystist upp og allt var blásið af.  Lengi vel var ein lífseigasta flökkusagan í íslenska poppinu og rokkinu sú að málin hefðu verið komin svo langt að búið hefði verið að bóka og sérmerkja rútu.  Eða langferðabíl.  Nú er það loksins staðfest.

Við Steini fundum langferðabílinn, merktan og vænlegan til afreka, á ónefndum stað í höfuðborginni.  Reyndar var það Steini sem fann hann, ég tók bara myndina.

Mynd0135

Ef myndin prentast vel má sjá að punkterað er á vinstri hjólbarða að aftanverðu og í hliðarrúðu ökumanns glittir í tilkynningu frá hinu opinbera þess efnis að nærveru þessarar sjálfrennireiðar sé ekki óskað á götum þessa lands.  Líklega hefur biðin eftir Bítlunum gert út af við hann.

Númi er búinn að vera sloj og slappur í allan dag.  Hann fór tvisvar upp á dýraspítala, í síðara skiptið þurfti að kalla dýralækninn út.  Númi ældi og spjó, lá eins og slytti og fannst lítið til gamanmála og gígjusláttar koma.  Þessi átta hundruð gramma skrokkur fékk einar fimm sprautur í dag (það jafngildir fimmhundruð sprautum hjá upprétta manninum...og nóta bene...það er fíll sem heldur á sprautunni!).  Þegar komið var fram yfir miðnætti spratt hann hins vegar á fætur og datt í stuð. 
Myndband af stuðkallinum verður birt innan skamms.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Gaman að því - ég á nebblega bílinn, eða 1/3 í honum. Hljómsveitin mín keypti hann fyrir um ári síðan á voðalega lítinn pjéníng og þeystum til Grundarfjarðar á ball, og svo eitthvað eilítið víðar. Svo hætti bíllinn í hljómsveitinni.

Verð að hringja í bassaleikarann, sem er ábyrgur fyrir sjálfrennireiðinni, og biðja hann að færa hann, þar sem mér finnst leiðinlegt að eigur mínar séu fyrir heiðarlegu fólki og trufli það. Hélt nebblega að druslan væri komin í varahluti!

Ingvar Valgeirsson, 10.7.2007 kl. 14:06

2 Smámynd: Snorri Sturluson

Svona er nú landið lítið! 
Annars er bifreiðin til þurftar frekar en hitt; við fórum nefnilega að velta Bítlunum fyrir okkur, í sem víðustum skilningi, og það varð til þess að rykið varð dustað af hljómplötunni Meet The Smithereens.  Langsótt?

Snorri Sturluson, 10.7.2007 kl. 15:21

3 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ekki svo. Smithereens er náttúrulega eðalbítlaband.

Ég vil samt geta þess að merkingin var á bílnum þegar við fengum hann.

Ingvar Valgeirsson, 10.7.2007 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband