Leita í fréttum mbl.is

Illa farið með gott nafn!

Fyrsta sjónvarpstækið sem ég tók ástfóstri við kom inn á heimilið 23.febrúar 1980.  Dagsetninguna man ég ekki vegna platónsks ástarsambands við tækið eingöngu; ég man hana líka vegna þess að sjónvarpið var sótt með viðhöfn nákvæmlega viku eftir að Stjáni bró kom heim af fæðingardeildinni.  Þetta var tími nýjunga og breytinga í Hjallalundinum.  Ég er ekki frá því að um stundarsakir hafi mér jafnvel þótt nýtt litasjónvarp merkilegra og áhugaverðara en lítil organdi athyglissuga, jafnvel þótt sugan þætti líkjast mér í útliti.  Sjónvarpið var enda gullfallegt, viðarlitað með svörtu stjórnborði, tónaði vel við panel-klæddan stofuvegginn og gaf frá sér dásamlega skýra og góða mynd.  Engin var fjarstýringin, enda voru það bara skipstjórar og læknar sem gátu leyft sér slíkan munað á þessum tíma, en það skyggði nákvæmlega ekkert á gleðina.  Sjónvarpið atarna færði mér ófáar gleðistundir og æskuminningar; einhverra hluta vegna standa upp úr, fyrir utan bíómyndir og Monty Python í gegnum myndbandstækið, tónleikar með The Police, Joe Jackson og svo auðvitað "tónleikakvöldið góða" á RÚV þar sem m.a. komu fram Meatloaf, Foreigner og Saga.  Þeir sem höfðu vit og rænu til að horfa á þá ágætu útsendingu, sem þótti reyndar svolítið merkileg vegna þess að svona útsendingar voru á þessum tíma með öllu óþekktar í sjónvarpi allra landsmanna, muna það flestir enn þann í dag og ræða sín á milli af væntumþykju og virðingu.  Sjónvarpstækið góða stóð af sér ófáa flutninga og á stundum óblíð handtök; það datt t.d. einu sinni beint á skjáinn á flísalagt gólfið á Þelamörk og var vart hugað líf.  Það stóð ekki bara af sér hnjask heldur líka tækninýjungar og gylliboð, oftar en ekki var freistandi að kaupa stærra tæki með betri skerpu...og fjarstýringu.  Aldurinn fór að lokum að segja til sín og með tíð og tíma átti tækið orðið erfitt með að greina á milli hinna fjölbreyttu lita sem lífið hefur upp á að bjóða.  Í aðdáunarverðri tilraun sinni til að standast tímans tönn fór sjónvarpið að sýna flest í grænum lit og það varð til þess að félagarnir hættu að nenna að horfa á boltann hjá mér; þeir sögðu að liðin væru öll í grænum búningum!
Svo fór að lokum að grænt yfirbragð tilverunnar varð einum of þungbært og gamla góða tækið fékk langþráða hvíld eftir tæplega 17 ára þjónustu.  Þess er sárt saknað.

Ástæðan fyrir því að ég rifja stuttlega upp feril þessa ágæta sjónvarpstækis, fyrsta litasjónvarps fjölskyldunnar, er sú að tækið var af tegundinni Luxor.  Luxor var sænskur raftækjaframleiðandi, þekktur fyrir vandaða og góða vöru (pabbi keypti helst skandinavisk tæki, sbr. Tandberg-tækið sem hann segir enn þann dag í dag að sé betra en rándýrt Pioneer-heimabíóið mitt).  Nokia keypti og kokgleypti Luxor-fyrirtækið á níunda áratugnum og merkið hvarf af markaði.  Nafnið Luxor hefur verið jákvætt hlaðið í mínum huga; þetta var jú tækið sem opnaði nýjar víddir og reyndist vel.  Það hefur ekkert með borgina Luxor í Egyptalandi að gera.

Nú er búið að taka þessa jákvæðu minningu og valta yfir hana.  Mér varð það á í gærkvöldi að skipta stuttlega yfir á Loga í beinni, þar sem sönghópurinn Luxor gerði heiðarlega tilraun til að rýja mig trúnni á allt hið góða í manninum.  Loftnetið reyndi m.a.s. að fleygja sér niður í grýtta gjótu við húsgaflinn.  Hverjum dettur í hug að þetta teljist flott, áhugavert að skemmtilegt?  Það er áhyggjuefni að á landinu bláa skuli finnast fimm ungir menn sem eru tilbúnir til að fara í vibrato-keppni innbyrðis og gersneyða ágæt dægurlög allri tilfinningu í leiðinni.  Þetta hlýtur að vera enn eitt höfðatöluheimsmetið.  Er fræðilegur möguleiki að setja einhvers konar lög til að koma í veg fyrir þetta?

Ég ætla, þrátt fyrir þessar tilraunir markaðsafla til að spilla æskuljómanum, að einbeita mér að því að halda Luxor-nafninu jákvæðu.  Luxor er sjónvarp...ekki hópur meintra söngvara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

þetta var fallegur pistill hjá þér snorri. fann fyrir svipaðri væntumþykju gagnvart tuttugutommu hitachi tækinu, silfurlituðu reyndar, sem var sem fjölskyldumeðlimur í ein fimmtán ár. keypt í tónabúðinni jebbs. örugglega með afslætti enda átti föðurfamílían öll svona alveg eins tæki. sem þó reyndust með afbrigðum bara.

þetta var líka fallegt hraun á luxor pilta. en það er samt svo skrýtið, þrátt fyrir allt og allt, að þetta helvíti á örugglega eftir að virka sjáðu til. þetta er einar bé og hann sér bara lengra en hans snubbótta nef nær. viðbjóður auðvitað, en viðbjóður sem virkar.

rétt heyrði aðeins síðasta part einsmellunga, born to be alive og freiheit... en næstum klukkutími eftir núna, ekki satt?? the trees með rush eða hurricane með dylan væri bara næs, svona fyrir háttinn.

arnar valgeirsson, 4.11.2007 kl. 01:16

2 Smámynd: arnar valgeirsson

úbbósí maður. kom að viðtæki eftir ríflega klukkustundarhlé og það eru bara tónleikar í gangi. hélt bara að pilturinn væri að spila eitthvað live þarna aðeins, en sorrí snorrí, bara línudans í gangi hér nú..

arnar valgeirsson, 4.11.2007 kl. 01:20

3 identicon

Blessuð  sé minning þessa frábæra sjónvarpstækis...

kristján sturluson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 00:20

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Hitachi-tækið, maður... æði. Sjálfur á ég Sony og bíð spenntur eftir drengjakór með sama nafni.

Ingvar Valgeirsson, 5.11.2007 kl. 14:34

5 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Ég held að þú vitir vart um hvað þú ert að tala um...

Guðni Már Henningsson, 7.11.2007 kl. 11:35

6 Smámynd: Guðni Már Henningsson

hér á landi á.

Guðni Már Henningsson, 7.11.2007 kl. 11:35

7 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Það sem er merkilegt við þetta...........er.............að þetta Luxor söngdæmi er í öllum helv....þáttum

Einar Bragi Bragason., 8.11.2007 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband