Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Er ekki bara málið...

...að krýna Færeyinginn sigurvegara og hætta þessu rugli? 

Einhverra hluta vegna virðast sumir standa í, eða hafa staðið í, þeirri trú að færeysk tónlist sé algjörlega kæst.  Það er misskilningur.  Hún er fersk.  Einhverjir kunna að muna eftir Tý og Viking Bandinu og svo hefur Eivör auðvitað borið hróður færeyskrar tónlistar víða.  Síðustu misserin hafa sprottið upp glimrandi fínar hljómsveitir og listamenn í Færeyjum; Deja Vu, Marius, Högni Lisberg, Teitur, Lena og Gestir svo fátt eitt sé nefnt.  Gestir eiga einmitt lag í tónlistarspilaranum hérna til hliðar, minna á köflum pínulítið á Radiohead, svona líka ljómandi fínir.  Ekki má gleyma G-Festivalinu í Götu, sem ber kraumandi tónlistarlífinu í Færeyjum fagurt vitni. 

Skaust á bílasölu í dag, skutlaði Gissa frænda að sækja "nýjan" bíl.  Hann keypti sér lítinn og skrítinn Peugeot, svo hrottalega upptjúnaðan að ég á ekki von á öðru en að hann snúi allt undan sér innan fjögurra vikna.  Bíllinn sko.  Á bílasölunni voru tveir innibílar og samanlagt verðmæti þeirra var 24 milljónir króna.  Audi-jeppinn kostaði 11 milljónir, sem er kannski réttlætanlegt upp að vissu marki, og Porche-inn kostaði 13 milljónir.  Verðmiðinn var næstum því stærri en bíllinn sjálfur.  Ég myndi hugsanlega kaupa svona bíl ef ég væri með trilljón í mánaðarlaun.  Ég myndi þá skutla honum í skottið á Skódanum og skjótast með hann heim.

Það kemur á óvart að ekki skuli hafa borist svar við getraun snorrans.  Það eru komnar vaðandi vísbendingar; faðir einsmellungsins er stórmógúll í tónlistarheiminum og í þessu eina lagi hans sem vakti athygli syngur einn þekktasta tónlistarmaður síðari tíma.  Nafn Debarge hefur borið á góma...og það vill svo skemmtilega til að James DeBarge var til skamms tíma mágur þekkta tónlistarmannsins.

Þetta er pabbi einsmellungsins...

bg


Á meðan...

...allt virðist vera að gerast; massívar kjaftasögur um forstjóraskipti hjá Símanum, Britney orðin ástfangin, Tottenham að ná mælanlegum árangri, þingmenn keppast við að gera í brók, Baugsmál verða meira og meira spennandi og hugmyndir um háskóla á Keflavíkurvelli eru ennþá inni í myndinni er ég með hugann við...bjúgu.

Sem ungur og upprenandi þjóðfélagsþegn, grunlaus um gefandi verkefni og gleðina sem beið mín handan við hornið, tók ég það að mér tímabundið að framleiða bjúgu.  Þetta var eitt ógeðfelldasta starf sem ég hef fengist við og er þó af ýmsu að taka.  Vinnustaðurinn sjálfur var ekkert svo slæmur í sjálfu sér, ég var að safna peningum til að kaupa skínandi fagra sjálfrennireið og setti það ekki fyrir mig að fást við hin ýmsu verk.  Bjúgnaframleiðslan markaði djúp spor í sálina og eftir fyrstu framleiðslulotu ákvað ég að skilgreina bjúgu aldrei aftur sem mat.  Aldrei.  Ég geri engum þann óleik að birta lýsingar á takteringunum við framleiðsluna, en á svipuðum forsendum forðast ég ákveðnar fisktegundir, svið og slátur.
Í dag læddist þessi ákvörðun um að láta af bjúgnaáti aftan að mér.  Ég hef hingað til skilgreint hana sem eina þá bestu ákvörðun sem ég hef tekið á ferlinum, ekki síst vegna þess að hún hefur forðað mér frá kvöl, pínu, sárum minningum og hreinlega vondum mat.  Ég var á fundi í hádeginu í dag og fundarhaldarar, góðborgarar af bestu gerð, buðu til matar.  Fullur tilhlökkunar gekk ég á garðann, en mér brá hressilega þegar sullandi sveitt bjúgu reyndu að ná við mig augnsambandi.  Ég þurfti á hraða ljóssins að taka ákvörðun; móðga hina góðu bjóðendur eða rifja upp leiðinleg kynni við þetta fyrirbæri sem sumir telja lostæti.  Verandi af sjómannskyni ákvað ég að láta mig hafa það.  Ég bað um lítinn skammt um leið og ég skellti flötum lófa á bumbuna í táknrænum tilgangi og drekkti svo kvikindunum í meðlæti.  Ég hef aldrei á ævinni borðað eins mikið af rauðrófum, ég var sannast sagna farinn að tárast og faldi það með gamla "fékk eitthvað í augað"-bragðinu, og líklega hef ég sett einhvers konar met í neyslu dverggulróta.  Ef ekki Evrópumet þá Íslandsmet.  Alla vega landsfjórðungsmet.  Þetta verður að teljast nokkuð vel af sér vikið þegar haft er í huga að ég reyndi að halda niðri í mér andanum sem mest ég mátti, til að draga úr áhrifum bjúgnanna, og svona eftir á að hyggja kann vel að vera að ég hafi misst meðvitund í skamma stund. 
Þetta var í fyrsta sinn í rúm 20 ár sem ég borða bjúgu.  Þetta var, að því gefnu að ég eigi það ekki á hættu að móðga gott fólk, fræga leikara og/eða þjóðhöfðingja með því að afþakka eða sniðganga, í síðasta sinn sem ég borða bjúgu.

Þessi merkilegi tónlistarmaður á afmæli í dag.  Hann er einsmellungur.

bday

 

 

 

Getraun dagsins er...hver er hann, hverra manna og hvað var það sem gerði eina smellinn hans eftirminnilegan og sérstakan?


Hrós dagsins fær Coca Cola Zero.  Ekki auglýsingarnar, heldur drykkurinn sjálfur.  Auglýsingaherferðin var hörmuleg.  Drykkurinn er fínn.  Loksins er kominn sykurlaus gosdrykkur sem bragðast eins og hann innihaldi heilt tonn af sykri.  Gott gott.


Hvernig...

...er hægt að gefa út dagblað, ætla sér stóra og mikla hluti, en bjóða blaðið ekki í áskrift?  Það vakti furðu hér í vinnunni að DV skilaði sér aldrei í póstkassann og þegar farið var að grennslast fyrir um blaðaskortinn kom í ljós að það er bara ekki í boði að gerast áskrifandi.  Takk fyrir túkall.  Að vísu er boðið upp á áskrift að helgarblaðinu.  Þetta er stórfurðuleg markaðshyggja.  Ég á ekki von á því að alvaldið bæti því við sem vantar upp á.  Ég græt þetta svo sem ekkert sérstaklega, geðheilsu minni er tæplega ógnað þótt ég fái téð blað ekki í hendurnar á hverjum degi, en af takmörkuðum kynnum sýnist mér blaðið samt ágætt.

Ég rakst á þessa frétt á mbl.is í gærkvöldi.  Umjöllunarefnið er auðvitað grafalvarlegt og alls ekki til að henda gaman að, en málvillan hreinlega stekkur í fangið á manni.  Sat á strák mínum, reiknaði með að fréttin hefði verið unnin í miklum flýti og bjóst við að hún yrði leiðrétt í morgunsárið.  O nei.  Hún er þarna enn.  Óbreytt.

Picture 1

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég held samt tryggð við mbl.is.  Skil ekki Vísisvefinn.  Hann er alltof kaótískur, fréttamatið er stundum skrýtið og flæðið stórfurðulegt. 
Það er reyndar svolítið fyndið að skoða forsíðu Vísisbloggsins.  Einhver hélt því fram að þetta blogg héldi heimsóknafjöldanum á visi.is uppi, en það kann að vera gaspur og grunlaust hjal.  Meirihluti skríbentanna sem opinberaðir eru bloggforsíðunni eru starfsmenn fyrirtækisins sem heldur vefnum úti (dótturfyrirtækis, móðurfyrirtækis...það skilur þetta hvort eð er enginn lengur).  Tilviljun?

Einn reyndasti og dáðasti útvarpsmaður landsins fór hamförum á öldum ljósvakans fyrir skemmstu.  Það eru þessi litlu atriði sem gefa lífinu gildi, verða til þess að maður nálgast verkefni dagsins með bros á vör.  Reynsluboltinn ætlaði að hafa vaðið fyrir neðan sig, tryggja hagsæld og góða heilsu um ókomna tíð, sló þremur þéttingsföstum höggum í borðið með krepptum hnefa og mælti skýrum rómi: "Þrír, fimm, sjö!" 


Getraun dagsins.  Hvar í rausinu hér að ofan er vísað í góðan og gildan dægurlagatexta?  Hver er höfundur lags og texta?


Framsetningin...

...og fyrirsagnirnar skipta öllu máli.  Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að fréttum af pólitiskum toga, hreinlega skoðanamyndandi fréttum og fyrirsögnum.  Stundum virðist sem íslenskir fjölmiðlungar séu ekkert að spá alltof mikið í þessa hluti.

Ég hnaut um þessa fyrirsögn í laugardagsblaði Morgunblaðsins.  Hún er reyndar ekki beint af pólitiskum meiði, enda skiptir það svo sem ekki öllu.  Hún hefur hins vegar valdið mér talsverðu hugarangri.

Picture 4

 

 

Af hverju er betra að auglýsa fasteignir á gamla varnarsvæðinu?  Eru ekki tiltölulega fáir líklegir kaupendur þar?  Ég sá fyrir mér nýja auglýsingaherferð.  "Ég auglýsti íbúðina bara á varnarsvæðinu...og seldi hana eftir hálftíma!"  Annar álitlegur möguleiki, mjög atvinnuskapandi, væri að efna til hópferða á varnarsvæðið til að skoða fasteignaauglýsingar.  Hið rétta kom auðvitað í ljós strax í fyrstu hendingu fréttarinnar...

Picture 5

 

 

Fyrirsögnin er samt búin að sitja í mér. 


Í dag má svo finna á tveimur stærstu netfréttasíðunum fréttir af afkomu írska lággjaldaflugfélagsins Aer Lingus.  Það mætti í fljótu bragði halda að fréttirnar fjölluðu um tvö fyrirtæki sem fyrir algjöra tilviljun gegna sama hlutverkinu og heita sama nafninu...

Picture 3

 

 

 

 

 

 

Picture 2

 

 

 

 

 

 

 

 

Minnkandi hagnaður getur að lokum leitt af sér hreint og klárt tap, en það er ofsalega erfitt að hagnast og tapa á sama tíma.  Hvorug fréttanna er í sjálfu sér röng, en fyrirsagnir og nálgun geta mótað álit fólks á mönnum, málefnum og fyrirtækjum.  Það er stór munur á því annars vegar að hagnaður sé minni en á síðasta ári og hins vegar að fyrirtækið sé rekið með tapi.  Neðri fréttin er öllu ítarlegri og betur unnin.  Hún á heima á mbl.is.  

Einhverra hluta vegna rifjast upp speki knattspyrnuþjálfarans sem þrumaði yfir fróðleiksþyrstum enskum blaðamönnum..."You have to work your work!" 


Lærdómur helgarinnar.

Ég lærði það um helgina að sum börn eru svo lík öðru foreldra sinna að það er næstum því óhugnanlegt.  Ari Gunnar Þorsteinsson Grétars Gunnarssonar sannfærði mig endanlega.  Þessi unga, en afskaplega nákvæma útgáfa af Steina tók þátt í Gettu betur og þetta var skemmtilegasti spurningaþáttur sem ég hef séð.  Ég tók ekkert eftir spurningum eða stigafjölda, ég sá bara Steina litla fara á kostum!  Þorsteini tókst m.a.s. að ljósrita húmorinn yfir í erfingjann og það er dágott afrek. 
Það er skrítið að upplifa tvö svona tilvik með tveggja daga millibili, en hafi ég haft minnstu efasemdir um galdraheim genapollanna þá fuku þær út í veður og vind á sunndaginn.  Rakst á ónefndan mann á bókamarkaði í Perlunni og hann er svo hættulega líkur pabba sínum, einum þekktasta Íslendingi allra tíma, að ég varð kjaftstopp og ráfaði dágóða stund um Perluna eins og riðuveik rolla.  Náði að hrista af mér furðuna og kaupa fínar bækur.  Keypti Furstann, Glæp og refsingu, Bono um Bono, Bítlabókina hans Ingólfs Margeirssonar, sjálfævisögu George Best og Dexter, sem hreinlega verður að standa undir væntingunum sem sjónvarpsþættirnir á Skjá 1 hafa hlaðið upp.  Bestu kaupin gerði ég þó í lítilli og lágværri ljóðabók.  Ég átti reyndar eintak af henni fyrir, en til þess að vera nokkuð öruggur um að hafa hana í seilingarfjarlægð um ókomin ár þótti vissara að kaupa annað eintak.  Þetta er ein fallegasta bók sem ég hef átt og það myndu nú ansi margir gera sjálfum sér greiða með því að verða sér úti um svo eins og eitt eða tvö stykki og lesa á eigin hraða.  Bókin heitir Þú og heima.  Höfundurin heitir Sverrir Páll.

Ég lærði það um helgina að sumir sjónvarpsþættir eru verri en aðrir.  Þeir sem eru sendir út úr stórum sal í Kópavogi eru stundum verstir.  Er ekki verið að grínast með þetta?
Ég lærði það um helgina að það getur verið ágætt að horfa á tiltölulega fáa fótboltaleiki um helgar.  Kom þægilega á óvart.
Ég lærði það um helgina að Rás 2 er handstýrðasta útvarpsstöð landsins.  Ég var eiginlega búinn að gleyma því hvað hún er laus við sjálfkeyrslu.  Það er hugsanlegt að það séu í senn bæði stærsti kostur hennar og galli.
Ég komst að því um helgina að ég hef verið dáleiddur þegar ég keypti mér jakkaföt í síðustu viku.  Buxurnar passa ágætlega, en í jakkanum gæti ég falið nýlegan smábíl.  Stórfurðulegt, ekki síst í ljósi þess að ég mátaði jakkann áður en ég keypti hann.  Getur verið að þetta hafi bara verið speglar og falskur botn þarna í búðinni?

Pabbi á afmæli í dag.  Mælst er til þess að landsmenn fagni því allir, hver á sinn hátt.  Það væri t.d. vel til fundið að gleðja eldri son hans með fjárframlögum.  Ekki síst eftir að sonurinn hætti við að stofna Styrktarsjóð Snorra Sturlusonar og hefja landssöfnun.


Höddi Magg...

...sá frómi piltur og mikli snillingur opinberar það á síðum Sirkuss í dag að þegar hann var 19 ára hafi hann verið blautur á milli eyrnanna.  Sem betur fer erum við öll þannig af Guði gerð að túlka má millieyrnapláss okkar blautt...svona upp að vissu marki...en ég lifi í þeirri trú að blaðamaðurinn sem tók viðtalið hafi hnotið um lyklaborðið sitt, en ekki að Höddi hafi blotnað aukalega á milli eyrnanna...frekar en á bak við þau.

Það er stórfenglega gefandi og ánægjuaukandi að vinna með mönnum eins og Sigga Sverris og Steina G.  Greind, skemmtilegheit og manngæska mætast í hæfilegum hlutföllum í þessum ágætu mönnum.  Steini hefur m.a. opnað heim Grateful Dead og bent mér á skemmtilegheit á borð við Clem Snide.  Tónspökum lesendum er bent á að kynna sér málið betur.

Rás 2 á sunnudagsmorguninn.  Afleysing.  Magga mamma í fríi.  Góð upphitun fyrir næturvaktarbröltið sem hefst um aðra helgi.  Fann glimrandi gott nafn á næturvaktina.  Eigi skal slökkva.  Ég tek mér Martein Mosdal til fyrirmyndar að þessu leyti.  Ég kem aftur.  Ég kem alltaf aftur.  Á Rás 2.


Frétt dagsins...

...og varaði um leið við mikilli hálku í borginni.  Þurfum við að ræða þetta eitthvað frekar?

Á þessum bæ fóru menn að rifja upp eftirminnilegar fyrirsagnir og undarlegt fréttamat.  Það þótti t.d. nokkuð gott þegar varað var við tímabundinni hálku fyrir skemmstu.  Fyrirsögnin Þremur sleppt eftir krufningu og fréttaeftirmálinn í Alþýðublaðinu sáluga...þess má geta að þegar blaðað fór í prentun stóð frystihúsið á Patreksfirði í ljósum logum stóðu eiginlega upp úr.

 
Þetta er orð sem virðist vera til í tveimur myndum.

Mynd046

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Er smurbrauðstofa kannski eitthvað allt annað en smurbrauðsstofa? 


mbl.is Fleygðu flatskjá í gegnum rúðu í Bræðrunum Ormsson til að komast út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert stefnir...

...þetta þjóðfélag eiginlega?  Sjálfskipaðar kvenréttindamógúlur (ath...mógúlar í kvenkyni!!!) góla hver í kappi við aðra og gefa sér ekki einu sinni tíma til að anda á milli fúkyrða og stórra fullyrðinga.  Andleysið veldur því að heilinn fær ekki nógu mikið súrefni og allir þeir sem kalla eftir rökstuðningi og gögnum eru kallaðir "litlir kallar", kjánar og þaðan af verra.
Margt má betur fara í þessu skrítna þjóðfélagi okkar, en lausnin felst ekki í því að allir horfi á Iron Jawed Angels eða lesi skýrslur Diönu Russel.  Hún felst heldur ekki í kynjakvóta, hvorki á framboðslistum né í stjórnum fyrirtækja.  Kynjakvóti orgar á vandræði og kallar á að gengið verði framhjá hæfum einstaklingum.  Þetta er ekkert rosalega flókið.

Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að stúlkan á forsíðu fermingarbæklings Smáralindarinnar sé í stellingu sem er "velþekkt úr klámmyndum"???  Hvernig?  Segir þetta ekki meira um hugsunarhátt þess sem túlkar stellinguna heldur en stellinguna sjálfa?  Ég sé a.m.k. ekkert...ég endurtek ekkert...klámfengið við þessa mynd og hún kveikti engar kynferðislegar kenndir.  Er það kannski ég sem er skrítinn?

Það hlýtur að vera skemmtilegra að vera kátur og glaður.  Jón góði Ólafsson á t.d. hrós skilið fyrir algjörlega óborganlegt fiðluatriði í þættinum sínum sl. laugardag.  Þetta er einfaldlega einn af hápunktum íslenskrar sjónvarpssögu.  Jón Haukur, ofur-útsendingastjóri og þúsundþjalasmiður, á líka hrós skilið fyrir að taka ekki nærmynd af Höllu Vilhjálms og Einari Bárðar kvöldið áður.  Þjóðin hefði tæpast beðið þess bætur.  Ógleymanleg sjónvarpsstund, en tæplega hápunktur.  Willum Þór á líka hrós skiliði fyrir setja Neil Young í liðið hjá Charlton.  Ég held að ég hafi aldrei verið eins nærri því að skella upp úr í sjónvarpsútsendingu og þegar Neil Young kom brunandi upp hægri kantinn.  Hægri bakvörður Charlton heitir Luke Young.  Útvarpsmaðurinn á Sögu sem var að fara yfir afmælisdagbókina og hnaut um erfitt nafn fór líka langleiðina með að hljóta sérstakt viðurkenningarskjal.  "Winston sjú...sjö...tsjú...kúr...eða hvernig sem það er nú lesið".  Félagi hans kom honum til bjargar.  "Winston Tsjörtshill heitir hann".  Að lokum...skemmtilegasta bloggið í öllum bloggheiminum.  Skyldulesning.


Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband