Leita í fréttum mbl.is

Lærdómur helgarinnar.

Ég lærði það um helgina að sum börn eru svo lík öðru foreldra sinna að það er næstum því óhugnanlegt.  Ari Gunnar Þorsteinsson Grétars Gunnarssonar sannfærði mig endanlega.  Þessi unga, en afskaplega nákvæma útgáfa af Steina tók þátt í Gettu betur og þetta var skemmtilegasti spurningaþáttur sem ég hef séð.  Ég tók ekkert eftir spurningum eða stigafjölda, ég sá bara Steina litla fara á kostum!  Þorsteini tókst m.a.s. að ljósrita húmorinn yfir í erfingjann og það er dágott afrek. 
Það er skrítið að upplifa tvö svona tilvik með tveggja daga millibili, en hafi ég haft minnstu efasemdir um galdraheim genapollanna þá fuku þær út í veður og vind á sunndaginn.  Rakst á ónefndan mann á bókamarkaði í Perlunni og hann er svo hættulega líkur pabba sínum, einum þekktasta Íslendingi allra tíma, að ég varð kjaftstopp og ráfaði dágóða stund um Perluna eins og riðuveik rolla.  Náði að hrista af mér furðuna og kaupa fínar bækur.  Keypti Furstann, Glæp og refsingu, Bono um Bono, Bítlabókina hans Ingólfs Margeirssonar, sjálfævisögu George Best og Dexter, sem hreinlega verður að standa undir væntingunum sem sjónvarpsþættirnir á Skjá 1 hafa hlaðið upp.  Bestu kaupin gerði ég þó í lítilli og lágværri ljóðabók.  Ég átti reyndar eintak af henni fyrir, en til þess að vera nokkuð öruggur um að hafa hana í seilingarfjarlægð um ókomin ár þótti vissara að kaupa annað eintak.  Þetta er ein fallegasta bók sem ég hef átt og það myndu nú ansi margir gera sjálfum sér greiða með því að verða sér úti um svo eins og eitt eða tvö stykki og lesa á eigin hraða.  Bókin heitir Þú og heima.  Höfundurin heitir Sverrir Páll.

Ég lærði það um helgina að sumir sjónvarpsþættir eru verri en aðrir.  Þeir sem eru sendir út úr stórum sal í Kópavogi eru stundum verstir.  Er ekki verið að grínast með þetta?
Ég lærði það um helgina að það getur verið ágætt að horfa á tiltölulega fáa fótboltaleiki um helgar.  Kom þægilega á óvart.
Ég lærði það um helgina að Rás 2 er handstýrðasta útvarpsstöð landsins.  Ég var eiginlega búinn að gleyma því hvað hún er laus við sjálfkeyrslu.  Það er hugsanlegt að það séu í senn bæði stærsti kostur hennar og galli.
Ég komst að því um helgina að ég hef verið dáleiddur þegar ég keypti mér jakkaföt í síðustu viku.  Buxurnar passa ágætlega, en í jakkanum gæti ég falið nýlegan smábíl.  Stórfurðulegt, ekki síst í ljósi þess að ég mátaði jakkann áður en ég keypti hann.  Getur verið að þetta hafi bara verið speglar og falskur botn þarna í búðinni?

Pabbi á afmæli í dag.  Mælst er til þess að landsmenn fagni því allir, hver á sinn hátt.  Það væri t.d. vel til fundið að gleðja eldri son hans með fjárframlögum.  Ekki síst eftir að sonurinn hætti við að stofna Styrktarsjóð Snorra Sturlusonar og hefja landssöfnun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnarsdóttir

Þú ert skemmtilegur!

Rúnarsdóttir, 12.3.2007 kl. 22:40

2 Smámynd: Ómar Eyþórsson

Veit nú ekki með skemmtilegheitin en jú þú ert ágætur. Hvenær á svo að bjóða manni í heimsókn á rásina til að líta dýrðina augum? Var ekkert að grínast með það að mig hefur lengi langað að kíkja þarna inn. Bítlabók Ingólfs er unaðslestur................

Ómar Eyþórsson, 13.3.2007 kl. 07:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband