Leita í fréttum mbl.is

Jæja...

...er ekki orðið tímabært að rjúfa þögnina?

Það er verst að maður er búinn að missa af fjölmörgum skemmtilegum málum til að fjasa um.  Það verður bara að hafa það.
Helstu atriði frétta.  Ekki endilega í krónólógiskri tímaröð.  Ný vinna.  Andlitslömun og heilasneiðmyndataka.  Apple Macintosh.


Nýja vinnan er hjá KOM.  Almannatengsl.  Ég átti 20 ára fjölmiðlaafmæli síðasta haust, þannig að það var alveg orðið tímabært að taka frí frá þessu eiginlega fjölmiðlabrasi.  Miðlarnir tengjast auðvitað þessari nýju vinnu, en á allt annan og að mörgu leyti skemmtilegri hátt.  KOM er ljómandi skemmtilegur staður, stútfullur af skemmtilegu fólki.  Það skemmir ekki fyrir að ég þekki meirihluta starfsmanna og það af góðu einu.  Skátablaðið sem fylgir Morgunblaðinu á fimmtudaginn er okkar verk.  Fjandi gott, þótt ég segi sjálfur frá.

Fyrsti dagurinn var afar eftirminnilegur.  Ég eyddi stórum hluta dagsins á bráðamóttöku LSH.  Málið var að á sunnudaginn fór ég að finna fyrir pirringi í hægra auganu, tilfinningin var svona svipuð þeirri sem fylgir því að fá augnhár eða annað tilfallandi í augað.  Þegar leið á daginn fannst mér eins og ég væri að missa stjórn á hægri helmingi andlitsins, matarneyslan um kvöldið var eftirminnileg þar sem munnurinn var tregur til samstarfs.  Þegar ég burstaði tennurnar seint og um síðir fannst mér ég vera að fínpússa hryggjarliðina.  Mjög undarleg upplifun.  Við fyrsta hanagal á mánudag hélt ég að allt væri orðið gott, mér fannst andlitsstjórnun bara ganga bærilega.  Þangað til ég leit í spegil.  Stjórnun var hreinlega ekki til staðar; í stað þess að blikka báðum augum eins og þorri landsmanna blikka ég bara með því vinstra og brosið teygir sig bara til vinstri, verður einhvers konar besservisser-glott.  Þessir taktar minna á sterkustu hliðar árangursmiðaðra piparsveina, en verða þreytandi til lengdar.  Ég mætti til vinnu og blikkaði eins og það væri hluti af starfslýsingunni, en fljótlega upp úr hádegi var orðið ljóst að þetta gengi ekki til lengdar.  Ég hlýddi ráðum þeirra sem til þekkja og skundaði upp á slysó.  Þar kom fljótlega í ljós að þetta er vírussýking í hægra auga og hún teygir sig niður í taugarstjórnunarstöðina undir kinnbeininu.  Ef ég hef skilið þetta rétt er þetta náskýlt og keimlíkt Bell´s Palsy.  Það vill svo skemmtilega til að ég fékk Bell´s Palsy fyrir rúmum 20 árum...vinstra megin.  Líklega er þetta aðferð sem þeir þarna í efra nota til jafna ófríðleikann út.  Ljótur báðum megin!  Ég var sendur í heilasneiðmyndatöku til vonar og vara.  Ég fékk endurgreitt.  Nú tekur við hrikalegur 10 daga stera- og víruseitthvað-kúr.  Hann gæti haft áhrif á lundarfar.  Frábært.  Ef ég verð skapstyggur og viðskotaillur á næstunni er það vegna steranna.  Bara svo að það sé á hreinu.  

Eitt af því sem fylgir nýrri vinnu er nýtt tölvuumhverfi.  Nú hamra ég eins og vindurinn á Makka.  Ég beit það í mig fyrir mörgum árum að Makkinn væri einhvers konar prótótýpa af tölvu, snilldarlega markaðssett en samt ekkert spes.  Ég er hægt og bítandi að skipta um skoðun.  Þetta er hin fínasta græja.  Ef ég skrifa eitthvað andstyggilegt á næstunni er það vegna Makkans.  Bara svo að það sé á hreinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja hérna aldeilis hér! Slefarðu?

Gulla (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 20:28

2 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Jæja kallinn. Þetta var gott hjá þér. Til lukku með það. Þið plumið ykkur ábyggilega ágætlega þarna skátarnir.

Sverrir Páll Erlendsson, 20.2.2007 kl. 21:32

3 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Til lukku með nýju vinnuna. Ég vona að þessi ljótleikalömun lagist sem allra fyrst, einfaldleiki MAKKANS á eftir að gera þér lífið auðveldara. Hann er ólamaður og fallegur.

Birgir Þór Bragason, 21.2.2007 kl. 08:17

4 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Nú?

Mér hefur ævinlega þótt Makki svo flókinn og aldrei getað látið verkfæri af þeirri tegund gera nokkurn skapaðan hlut fyrir mig. 

Sverrir Páll Erlendsson, 21.2.2007 kl. 22:40

5 identicon

Ola, velkomin úr hvíld, til hamingju með nýju vinnuna og með að vírusinn var ekki Bells... , það hefði sko ekki verið stuð. 

 kv.

Trausti frændi...

Trausti (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband