Leita í fréttum mbl.is

Alltaf finnur maður eitthvað...

...sem léttir lund.  Vörutorg er að koma sterkt inn.  Stórbrotinn sjónvarpsþáttur á S1, þar sem hugmyndaauðgi, lífsgleði og umhyggja fyrir náunganum gera það að verkum að maður þorir vart að depla auga á meðan á yndislegheitunum stendur.  Ég hef m.a.s. frestað því fram úr hófi að skoða nýju fínu myndirnar sem ég keypti í Perlunni um daginn- ég er svo hræddur um að missa af nýrri vöru hjá Vörutorgi.  Sjónvarpsþátturinn er auðvitað bara hliðarspor, heimasíðan er ásinn sem þetta snýst um.  Ég er búinn að finna þrjár vörur sem myndu létta mér lífið, auðga andann og líklega gleðja gesti og gangandi.

Allt byrjar þetta á því að þegar ég kem heim eftir langan vinnudag smeygi ég mér í heilsuinniskóna. 

heilsuskór

Samkvæmt lýsingu, sem engin ástæða er til að draga í efa, mun "fótum mínum líða eins og þeir séu í sjöunda himni".  Tilhugsunin ein um að fæturnir upplifi hluti sem aðrir hlutar líkamans missa af gera skóna afar eftirsóknarverða.  Galdurinn felst í frauðinu.

Þegar fæturnir hafa afpólað sig í alsælufrauði er orðið tímabært að elda eftirminnilega máltíð.  Slíkt er nánast óhugsandi nema maður hafi við höndina salt- og piparkvarnir með ljósum. 

saltogpipar

Ég er ekki enn farinn að ná utan um það hvernig ég komst af án þessara kvarna.  Fyrir utan það að maður er með salt- og piparmagnið algjörlega á kristaltæru (ljósbirtan tryggir hárrétt magn) getur maður duflað við matreiðslugyðjuna í rafmagnsleysi.  Jafnvel ef peran springur og ananasinn er búinn!

Dagurinn er svo fullkomnaður þegar sest er niður í kvöldhúminu, málin rædd og lífsins gátur leystar.  Kvöldið verður dapurt og gleðisnautt, nema að til staðar sé súkkulaðigosbrunnur.

sukkuladibrunnur

Hvaða organdi snillingur fann þetta eiginlega upp?  Nú skilur maður loksins af hverju súkkulaði er steypt í flatar blokkir.  Það er auðvitað gert til þess að auðvelda flutningana...frá verksmiðjunni og heim til þeirra hundruða þúsunda sem eiga súkkulaðigosbrunn.  Hvað getur hugsanlega verið betra en að dýfa flatbrauðinu í súkkulaði?

Ég er svolítið hissa á því að hafa ekki fengið einhvern þessara hluta í afmælisgjöf.


Líklega á manni eftir að leiðast alveg óskaplega þegar hlutir hætta að koma manni á óvart.  Hlustaði aðeins á handboltalýsingar á Rás II í dag.  Það var óendanlega hressandi að hlusta á Frey Eyjólfs og Ágúst Boga lýsa handbolta.  Ég beið eftir því að Freysi tæki viðtal við markaskorara og Gústi segði mér úthlaupaferil markmannsins.  Ég var samt spenntastur yfir því að heyra hvaða leik Andrea Jóns ætlaði að lýsa.

Mánudagsgetraunin. 
Spurt er um tónlistarmann.  Hann er einsmellungur.  Væri hann NBA-aðdáandi, sem mér finnst frekar ólíklegt að hann sé, myndi hann eflaust halda með Celtics.  Tónlistarbröltið hans er kennt við vesturströndina, þar sem hljómsveitin hans náði afar óspennandi árangri áður en hann hélt út á einherjabrautina.  Lagið sem hann er þekktur fyrir kom út á plötu árið 1969 og varð stórsmellur.  Kappinn náði ekki að fylgja laginu eftir, tilraunirnar til þess voru reyndar í besta falli sorglegar.  Hann hætti tónlistarbröltinu árið 1972 og gerðist kúabóndi.  Á níunda áratug síðustu aldar lét hann aðeins að sér kveða sem umboðsmaður og skipuleggjendi minniháttar tónlistarhátíða, en nýjustu fregnir herma að sambúðin við kýrnar sé í glimrandi blóma.

Hver er maðurinn...og hvað heitir smellurinn hans?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Viðar

Eftir mikil heilabrot (og smá hjálp frá internetinu) tókst mér að muna hvað hann heitir. Ég ætla hinsvegar að leyfa fleirum að reyna.

N.G. og lagið byrjar á S... 

Haukur Viðar, 16.4.2007 kl. 03:08

2 identicon

Ha ha...þetta fannst mér fyndinn pistill, Snorri (utan getraunarinnar)

Gulla (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 14:58

3 Smámynd: Sardinan

Ég er komin í feita fýlu við þig herra þú!

Þessi mynd af súkkulaðifossum er alveg að skemma fyrir mér súkkulaði afvötnunina eftir páskana.

Ég vil súkkulaði ekki seinna en núna!

Sardinan, 16.4.2007 kl. 16:51

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Einhvernvegin er eitthvað sem segir mér að þetta geti verið Norman Greenbaum og lagið er jú Spirit in the Sky... eða hvað?

Ingvar Valgeirsson, 16.4.2007 kl. 18:02

5 Smámynd: Snorri Sturluson

Norman var það heillinn!  Ingvar, þú ert greindur og tónviss í senn! 

Þessi ágæti maður, Hr. Greenbaum, er furðulegt fyrirbæri, dettur niður á þetta magnaða lag, Spirit In The Sky, en síðan ekki söguna meir.  Hann gerði heiðarlega tilraun til að fylgja þessum gegndarlausu vinsældum eftir, en síðari tíma lögin hans má eiginlega túlka sem glæpi gegn mannkyninu.  Skiptir hann svo sem ekki öllu máli, stefgjöldin af Skýjaandanum duga næstu kynslóðum og vel það.

Snorri Sturluson, 16.4.2007 kl. 18:33

6 identicon

Að vita að Norman væri það heillin er nokkuð tilkomumikið. Ekki hafði ég svar við þessu og tel mig þó vera ansi poppfróðan. Gaman væri að keppa við Ingvar í Popppunkti því þarna er greinilega verðugur andstæðingur.

Egill Harðar (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 22:50

7 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Reyndar hef ég komið fram í Popppunkti - reyndar ekki sem keppandi, var að afhenda Ensími verðlaun, gríðarveglega úttekt í Tónabúðinni, hvar ég einmitt vinn. Þannig að ég get sagt að ég hafi komið fram í Popppunkti og aldrei tapað...

Má geta þess að þetta var eitt af fyrstu lögunum sem ég lærði á gítar meðan ég sextán vetra gamall, hef lært fleiri lög síðan.

Sýnist samt Haukur Skinkuorgel hafa lagt mig þarna.

Ingvar Valgeirsson, 16.4.2007 kl. 23:21

8 Smámynd: Snorri Sturluson

Jebb...það má ekki taka heiðurinn af Hauki!  Ég hef reyndar áhyggjur af því hvað hann vakir á nóttunni :-)

Fyrst minnst er á Popppunkt (eru til fleiri íslensk orð með þremur péum í röð???) má ekki gleyma þeirri óskaplega skemmtilegu staðreynd að undirritaður er ríkjandi Popppunktsmeistari!  XFM hafði sigur á Rás II í síðasta Popppunktsþætti í heimi (það er gaman að skrifa þrjú pé í röð!), en í ljósi aðstæðna er sigurinn ljúfsár. 
Heimildir herma að Popppunktur verði ekki settur á dagskrá S1 aftur (ekki áhugaleysi Doktorsins um að kenna), en hins vegar hvíslaði því að mér lítill fugl að poppspurningaþáttur í útvarpsformi skyti upp kollinum með hækkandi sól.

Nördinn í mér skilar örugglega af sér fleiri tónlistargetraunum í nánustu framtíð.  Merkilegt hvað hægt er að skemmta sér yfir þessu.

Snorri Sturluson, 17.4.2007 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband