Leita í fréttum mbl.is

Vorboðinn ljúfi!

Þvottaplön.  Algjört lykilatriði í árstíðarskilgreiningum á Íslandi.  Það er svo merkilegt að landsmenn rýna frekar í dagatalið og fyrirbæri eins og sumardaginn fyrsta þegar þeir meta það hvort "óhætt" sé að þvo bílinn á næsta þvottaplani.  Þetta snýst eiginlega ekki um hlýnandi veður og aukna geðprýði.  Það er bara búið að ákveða það að sumarið sé komið og þar með er það orðið bíleigendum gríðarlega mikilvægt að standa lopnir og kalnir á tánum á næsta þvottaplani.  Til að auka á vellíðan er vatnið við frostmark, en þá er bara að bíta á jaxlinn af enn meiri krafti og taka þetta á karlmennskunni.  Það er jafnvel til í dæminu að menn bíti sig til blóðs, bara til að draga athyglina frá máttleysinu í frostnum fingrunum og suðinu í eyrunum.
Ég sá mann sem var að bóna bílinn sinn við bensínstöð fyrir hádegi í dag.  Hann var blár á vörunum og mér sýndist olnbogarnir vera frostnir fastir.  Bónið fraus á bílnum og ef einhver labbaði framhjá fauk fíngert bónduftið út í veður og vind.  Samt sýndist mér bónarinn vera nokkuð sáttur.  Hann var jú að sinna sumarverkum.  Á stuttermabol. 

Svona var umhorfs við þvottaplanið á ónefndum stað.  Biðröð, hvað þá annað.  Þetta er nett geggjun...

Mynd035

 

 

 

 

 

 

 

 




Ég heyrði aðeins í Bjarna Harðar í útvarpinu í gær.  Man ekkert um hvað hann var að tala, en við þessa hlustun rifjaðist upp fyrir mér útvarpspistill sem hann flutti fyrir einhverjum mánuðum.   Bjarni setti þar fram áhugaverða "kenningu" um einn mesta kappa Íslandssögunnar, Gunnar á Hlíðarenda.  Bjarni hafði, eftir miklar pælingar, komist að því að Gunnar hefur mjög líklega verið heyrnarlaus.  Hann hafði jú einna mest samskipti við hinn skegglausa Njál á Bergþórshvoli og samtöl þeirra gengu mjög gjarnan út á það að Njáll var að leggja Gunnari línurnar fyrir væntanlegan hitting, t.d. þegar hann hugðist biðja sér konu.  Njáll sagði Gunnari hvað hann ætti að segja, hvert svarið yrði og hvernig hann ætti að svara því...og svo koll af kolli.  Gunnar var s.s. að fá handrit að væntanlegu samtali.  Skeggprýði var jú landlæg á árum áður, sem gerði Gunnari erfitt um vik, ef kenningin er rétt.  Skeggið gerði það að verkum að hann átti erfitt með að lesa af vörum...nema þegar hann "talaði" við Njál...sem var skegglaus með öllu. 
Ekki nóg með það.  Til eru sögur af því að hestur hafi sparkað í höfuð Gunnars hvar hann reið framhjá.  Þetta er varla hægt nema að Gunnar hafi verið krjúpandi eða hreinlega liggjandi, sem fátt bendir til.  Skýringin?  Jú...hann var dvergvaxinn!  Það skýrir það þá í leiðinni hvers vegna honum reyndist tiltölulega auðvelt að stökkva hæð sína í fullum herklæðum.  Gunnar á Hlíðarenda var s.s. heyrnarlaus dvergur, samkvæmt þessari kenningu Bjarna Harðarsonar.


Á meðan ég man.  Ég get haft milligöngu um eigendaskipti stálfelga og rándýrra hjólkoppa undan...og undir...Mercedes Benz.  Umsýslugjald mitt er sanngjarnt og greiðslufyrirkomulag umsemjanlegt.

Mynd018

 

 

 

 

 

 

 

 




Hjólkopparnir eru handsmíðaðir á litlu verkstæði í suðurhluta Svartaskógar og þykja mjög fínir.  Hér gefst kærkomið tækifæri til að eignast ótrúlega vandaða vöru, sem mjög líklega mun vekja aðdáun og öfund samferðafólks.  Ég myndi m.a.s. segja að hér væri komið tilefni til að fjárfesta í bifreið af gerðinni Mercedes Benz, ef slík er ekki til eignar nú þegar, þótt ekki væri til annars en að geta stært sig af hjólkoppunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Já, það er satt, að rómantík þvottaplannanna er ævintýri út af fyrir sig, sem er þó á undanhaldi. Orsökin er sú að jafnóðum og olíufélögin leggja niður þjónustustöðvar sínar og setja upp sjálfsala hætta þær að hafa slöngur og vatn á þvottaplönunum. Sem er helvíti skítt. Og hallærislegt að taka bensín á Orkunni og renna svo við hjá Olís og þvo bílinn. Mér finnst það eiginlega ekki kurteisi, svo ég þvæ minn oftast heima. Og það er ekkert ógeðlega rómantískt.

Sverrir Páll Erlendsson, 19.4.2007 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband