Leita í fréttum mbl.is

Bikarinn til Bergen!

Hið frækna knattspyrnulið Brann frá Bergen, hvar þrír vörpulegir knattspyrnumenn frá landinu bláa eru í lykilhlutverkum, er um það bil að tryggja sér norska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 44 ár.  Bærinn er algjörlega knattspyrnuóður, fólk gisti fyrir utan verslunarkjarnann í miðborginni í miðri viku til að tryggja sér miða á síðasta heimaleikinn og Brann-búðin í kjarnanum minnir á brauðbúð í A-Evrópu á tímum kalda stríðsins.  Þrátt fyrir vöruskort tókst mér að finna þar fína Brann-peysu, sem ég keypti til að vega upp á móti vonbrigðunum sem eigið landslið veldur.  Gott ef ég er ekki bara orðinn nokkuð spenntur fyrir leik Norðmanna og Tyrkja, þar sem Hareide-gumar geta tryggt sér sæti á EM.  Reiknað er með að rúmlega 100 þúsund sálir heiðri miðborg Bergen með nærveru sinni á laugardag og búið er að brugga sérstakan meistarabjór.  Í morgun birtist í Bergensavisen viðtal við mann og konu sem fæddust daginn eftir að Brann vann meistaratitilinn síðast, 14.október 1963.  Líklega munu þó ekki birtast fleiri viðtöl við Dag Fölling og Randi Merete Ramberg á næstunni, þau muna nefnilega ekkert eftir stemmningunni síðast þegar Brann varð meistari.

Fyrir utan hótelið okkar, sem er haganlega staðsett í miðri miðborginni, er búið að setja upp einhvers konar bás...fyrir æfingahjól.  Þar koma Brann-istar saman í smærri hópum og "hjóla gullið heim", eins og þeir kalla það.  Það á s.s. að halda snúningi á hjólunum þar til titilinn er í höfn.  Þótt flestir reikni með því að titlunum verði landað á laugardag er möguleiki á að það dragist aðeins á langinn og þá hlýtur þetta að verða einhvers konar álfumet í kaloríubrennslu.

Mynd081

Það sem vakti athygli skarpgreinda Íslendinga var að maðurinn á auglýsingaspjaldinu sem prýðir þennan ágæta bás er í World Class-bol.  Ekki nóg með það...heldur eru hér uppi vangaveltur um að umræddur maður sé bakari og hafi á einhverjum tímapunkti starfað á Húsavík.  Nei, það er ekki verið að rugla honum saman við Andra Sigþórs.

Mynd080

Amy Winehouse gistir líka á þessu hóteli.  Einhverjir þeirra sem ég hef verið að dedúast með í vikunni urðu vitni að handtöku hennar í nótt.  Þeim fannst frekar lítið til söngdívunnar koma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sem betur fer verður bið á því að birkarinn fari til Bergen. Og vonandi fer hann alls ekki þanngað!

Kristinn Björgúlfsson (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 22:40

2 Smámynd: Snorri Sturluson

Skil ekki alveg hvað Brennsar voru að láta Álasund flækjast fyrir sér.  Bikarinn endar í Bergen, það er ekki spurning um hvort heldur hvenær.  Líklega hefðu  menn átt að spara flugeldatendranir í nótt sem leið.  Sá svo tugi ef ekki hundruðir rauðklæddra stuðbolta á Álasundsleið á flugvellinum í Bergen í morgun og er næstum að detta í það að kenna í brjósti um þá.  Finn þó meira til með hjólafólkinu við hótelið, sem væntanlega gekk út frá því sem vísu að bikarinn myndi skila sér í dag.  Nú þarf að hjóla í viku til viðbótar!

Snorri Sturluson, 20.10.2007 kl. 22:59

3 Smámynd: arnar valgeirsson

skelltu þér bara á hjólið og spriklaðu bikarinn í hús. en djöss eymingjar voru þeir að klúðra... það á aldrei að halda upp á fyrirfram.

en norðmenn hafa nú alltaf verið duglegir þó þeir hafi ekki alltaf verið góðir í boltanum. vona sko að þeir taki tyrkina. helst í bakaríið. húsvískt...

arnar valgeirsson, 20.10.2007 kl. 23:11

4 Smámynd: arnar valgeirsson

æi, klára aldrei þennan lista... velkominn heim samt.

the wizard með uriah heep væri nú ljúft fyrir svefninn.... og fyrir hina "i was made" með kiss. allavega það fellur stjórnanda í geð, ef mig misminnir ekki sko....

arnar valgeirsson, 21.10.2007 kl. 00:16

5 identicon

Því miður. Því mður þá verður bikarinn sennilega í Bergen þetta árið.

Kristinn Björgúlfsson (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 00:42

6 Smámynd: arnar valgeirsson

þakkir frá brödrene valgeirsson. aldeilis ekki slæmt. galdrakallinn er mitt uppáhalds ever.

og leeds væri með 32 stig i leage 1 ef allt væri með felldu. næsta lið með 23 stig. við erum svoleiðis langlangbestir...

arnar valgeirsson, 21.10.2007 kl. 14:03

7 Smámynd: Snorri Sturluson

Hrmfff...það er nú frekar fúlt að vinna titilinn með því að tapa!  Þannig lagað. 
Ég er sannfærðari en nokkru sinni um það að maðurinn á myndinni er Íslendingur.  Hann var nefnilega líka notaður til að auglýsa World Class í einhverju af þessum flugblöðum sem maður gluggar stuttlega í þegar maður er búinn að hlamma sér niður í vélinni og bíður spenntur eftir því að fá það staðfest að enn eina ferðina er maður svo ljónheppinn að lenda á flugstjóranum sem talar.

Ánægður með Leeds...og enn ánægðari með þá sem ekki yfirgáfu skútuna þegar hún steytti á skeri. 
Það vill svo skemmtilega til að Leeds varð fyrst allra knattspyrnuliða til að heilla mig með fallegri fótmennt, að vísan pabba, en þar sem ég bjó í Danaveldi á þeim tíma var frekar langsótt að fara að halda með ensku liði.  Við heimflutning, og þar með innvigslu í engilsaxneska knattspyrnumenningu, voru hins vegar breyttir tímar og annað lið varð fyrir valinu.

Snorri Sturluson, 23.10.2007 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband