Leita í fréttum mbl.is

Eru það ellimerki...

...að finnast það undarlegt að yngri kynslóðin skuli ekki þekkja Ríó tríó og Dr.Hook?  Simmi spilaði Allir eru að gera´ða úr smiðju Ríósins í Gettu betur í kvöld og spurði hvaða hljómsveit flytti lagið og hvaða erlenda hljómsveit hefði flutt það upphaflega.  Svarið sem barst var...Súkkat!  Ég hélt að Ríó tríó væri einn þaulsetnasti heimilisvinur Íslandssögunnar og að plötur þess hefðu snúist fleiri snúninga á plötuspilurum landsmanna en nokkrar aðrar.  Maður góndi gaddfreðinn á plötuumslögin á meðan smellirnir ulluðust út úr hátölurunum og fékk aldrei nóg af stílhreinum leðurjökkum og kragastórum skyrtum.  Húmor og ágæt tónlist á löngum köflum...fín blanda.

Allir eru að gera´ða er íslensk útgáfa Dr.Hook-lagsins Everybody´s Makin´It Big But Me, eins og líklega margir vitaÞessi útvarpsupprijun, þ.e. spilunin á Rás 2, kveikti á minningu um Dr. Hook-umfjöllun í danskri tónlistarbók sem var með því dýrmætasta sem ég tók með mér við heimflutning frá gamla höfuðstaðnum fyrir margt löngu.  Þetta var bók þar sem helstu tónlistarafrek ársins 1974 voru rifjuð upp í máli og litskrúðugum og glæsilegum myndum.  Þarna var að finna umfjöllun um Marc Bolan, Elton John (sem á þessum tíma var hæfilega skemmtilegur!), Bay City Rollers, Sweet, David Bowie og magnaða stuttgrein og myndir af stórsveitinni Kiss, svo fátt eitt sé nefnt.  Þær myndir klippti ég nú reyndar út úr bókinni í einhverju vitleysiskasti og hengdi upp á vegg, en það er önnur saga.  Í þessari bók var sagt frá tónleikum Dr. Hook á Hróarskeldu, að mig minnir, en það sem þótti eftirminnilegast við tónleikana var að hljómsveitarmeðlimir komu fram með typpalingana eina að vopni!  Og hljóðfærin að sjálfsögðu.  Ég hef nettan grun um að þessi mynd hafi verið tekin við þetta tækifæri...

drhook 

Ef mér skjöplast ekki er þetta Ray Sawyer, Húkkurinn sjálfur.  Það skal þó tekið fram að viðurnefnið fékk hann ekki fyrir líkamspartinn sem hann felur fagmannlega á myndinni, heldur vegna þess að hann lenti í umferðarslysi árið 1967 og bar eftir það lepp fyrir hægra auga...og Dr. Hook var tilvísun í ævintýrið um Pétur Pan.

Typpatónleikarnir urðu til þess að maður tók sérstaklega eftir Dr. Hook í þessari ágætu bók, en það var reyndar önnur sveit sem fór langleiðina með að toppa nektaráhugann.  Bandaríska kvennarokksveitin The Runaways fékk sæmilegt pláss í bókinni, fáa hefur nú líklega grunað að valkyrjurnar Joan Jett og Lita Ford ættu eftir að ná langt sem einherjar, en þess var sérstaklega getið að hljómsveitarmeðlimir hefðu á löngum stundum haft afskaplega gaman að því að koma fram á Evuklæðunum.  Ég held að það hljóti að vera sjálfgefið að þeir tónleikar hafa verið allrar athygli verðir...og það jafnvel þótt hljóðfærin hefðu verið skilin eftir heima.
Þetta er myndin sem birtist af The Runaways í þessari fínu bók...

runaways


Mikið ofboðslega eru bílaauglýsingarnar í sjónvarpinu orðnar leiðinlegar og vitlausar!  Hverjum myndi detta það í hug að spila íshokkí á jepplingnum sínum?

Spilaði körfubolta í Sporthúsinu í dag eftir u.þ.b. árs fjarveru vegna meiðsla og litríkra og fjölbreytilegra afsakana.  Fólki þótti orðið furðulegt hvað ég var duglegur að baða hundinn og sækja keramikk-námskeið þegar minnst var á ræktina.  Það kom hins vegar í ljós í dag að snerpan, hittnin og leikskilningurinn eru enn til staðar.  Hlutirnir gerast bara aðeins hægar.

Mér skilst að stuðningsmenn Arsenal séu barmafullir af hamingju og jákvæðni í dag.  Það verður reyndar að hrósa liðinu fyrir að skora sex mörk á Anfield.  Það er assgoti vel gert.  Dudek var klárlega besti maðurinn þeirra.  Ég ákvað að forðast vangaveltur um leikinn þegar ég talaði við Hödda í dag.  Aðgát skal höfð í nærveru Liverpool-sálar.

Og já...fyrsta útvarpsstöðin sem sendi út á 95.7.  Hljóðbylgjan sáluga.  Sendi fyrstu sendingarnar sunnan heiða úr hljóðveri Útrásar í FÁ.  Desember 1988.  Þá voru í loftinu tvær Hljóðbylgjur, önnur fyrir norðan og hin fyrir sunnan.  Sérvalinn þriggja manna úrvalshópur var sendur suður til að "vinna markaðinn" og tryggja áður óþekkta hlustun.  Það tókst næstum því.  Eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá hvað ég er sorgmædd. Ég hef nú lengi haldið því fram að heimurinn sé betri núna en nokkru sinni en ef að Ríó Tríó og Dr. Hook eru gleymdar perlur þá fer ég að efast.

Eins gott að allir muni Smokey því annars er þetta búið. 

Gulla sæta (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband