Leita í fréttum mbl.is

Íslenskt sjónvarpsefni?

Ég er að hugsa um að fara að sanka að mér íslensku sjónvarpsefni, íslenskum þáttum af öllum stærðum og gerðum, því það læðist að mér sá grunur að ég þurfi á sönnunargögnum að halda þegar ég fer að segja barnabörnunum að einu sinni hafi verið búið til sjónvarpsefni á Íslandi.
Af hverju keppast sjónvarpsstöðvarnar hér á landi, þ.e. þær sem bjóða upp á almennt afþreyingarefni, við það að næla í sem flesta erlenda þætti?  Gæðin eru nú ekki alltaf að gera út af við mann, eins og t.d. raunveruleikaþátturinn um fasteignasalana ber fagurt vitni.  Líklega eru margir þessara þátta teknir með í pakkadílum þegar nælt er í eftirsóknarverðara efni.  Þetta verður til þess að vitleysan hreinlega lekur af skjánum hjá manni á löngum stundum og stöðvaskiptatakkinn á fjarstýringunni er farinn að standa á sér.  Reyndar má hafa lymskulega gaman að sumum endursýningunum, fortíðarflakk getur á stundum verið hressandi, og einn og einn þáttur er áhorfsvænn.  Heroes á Skjá 1 til dæmis.  Þarf ekki einhver að fara að kveða upp úrskurð í typpamælingakeppni dagskrárstjóranna?  Hvað varð um íslenska dagskrárgerð?  Fyrir fáeinum misserum var vart þverfótað fyrir íslenskum þáttum, einkum á S1, og vissulega voru þeir misjafnir eins og þeir voru margir.  Þeir voru hins vegar íslenskir og með tíð og tíma helltust þeir slökustu úr lestinni og vinnsla annarra tók framförum.  Svo lognaðist þetta einhverra hluta vegna útaf.  Að mestu leyti.  Það þarf ekki alltaf allt að kosta rosalega mikla peninga til þess að það geti talist áhorfsvænt.  Stundum verður tilkostnaður og prjál líka til þess að þættir verða hreinlega leiðinlegir.  Venni Páer er frábært dæmi um það sem hægt er að gera.  Sigtið líka.  Að ógleymdum Strákunum...og grínseríunni á Stöð 2.  Það vantar fleiri svona þætti.  Við eigum nóg af hæfileikaríku fólki, bæði dagskrárgerðarmönnum og ekki síður tökumönnum, hljóðmönnum, klippurum o.s.fr.  Þetta fólk þarf að fá verkefni við hæfi.

Það kviknaði á lítilli peru um helgina.  Hlustaði aðeins á Tvíhöfða á Rás 2 og þar tóku þeir nöldurhornið sitt eða símatímann eða hvað þetta nú heitir.  Jón Gnarr leikur hlustandann, sem hringir í Sigurjón og tuðar og nöldrar samhengislaust út í eitt, drabbandi út og suður.  Þetta fannst manni, og finnst enn, alveg óborganlega fyndið.  Þar sem ég sat í bílnum og hlustaði á nýtt nöldurhorn kviknaði hins vegar á peru.  Þetta hljómaði nákvæmlega eins og Útvarp Saga!  Reyndar svo mjög að Habban hélt því statt og stöðugt fram að Jón Gnarr væri margreyndur innhringjandi á téðri útvarpsstöð.  Ég fattaði þar og þá af hverju stundum er svona óendanlega gaman að hlusta á Útvarp Sögu.  Sem svo aftur minnir á eitt besta nöldurhorn Tvíhöfða, þegar Jón hringdi til að kvarta undan skónum sem hann keypti á útsölu...sagðist nota númer 42 en stærsta númerið sem var til á útsölunni var 38.  Skórnir voru hins vegar svo ódýrir að hann skellti sér á par.  Nú var hann að drepast í fótunum!  Það sorglega er kannski að þetta hefði getað verið alvöru símtal á Sögu!

Ég er búinn að finna úrið sem mig langar í!

skodaúr

Hraðamælirinn gerir útslagið!  Og já...ég á einmitt afmæli í byrjun febrúar!

PS.  Það er allt að verða vitlaust í gestabókinni á xfm.is.  Veit ekki alveg hvort ég á að fagna eða gráta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband