Leita í fréttum mbl.is

Framsetningin...

...og fyrirsagnirnar skipta öllu máli.  Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að fréttum af pólitiskum toga, hreinlega skoðanamyndandi fréttum og fyrirsögnum.  Stundum virðist sem íslenskir fjölmiðlungar séu ekkert að spá alltof mikið í þessa hluti.

Ég hnaut um þessa fyrirsögn í laugardagsblaði Morgunblaðsins.  Hún er reyndar ekki beint af pólitiskum meiði, enda skiptir það svo sem ekki öllu.  Hún hefur hins vegar valdið mér talsverðu hugarangri.

Picture 4

 

 

Af hverju er betra að auglýsa fasteignir á gamla varnarsvæðinu?  Eru ekki tiltölulega fáir líklegir kaupendur þar?  Ég sá fyrir mér nýja auglýsingaherferð.  "Ég auglýsti íbúðina bara á varnarsvæðinu...og seldi hana eftir hálftíma!"  Annar álitlegur möguleiki, mjög atvinnuskapandi, væri að efna til hópferða á varnarsvæðið til að skoða fasteignaauglýsingar.  Hið rétta kom auðvitað í ljós strax í fyrstu hendingu fréttarinnar...

Picture 5

 

 

Fyrirsögnin er samt búin að sitja í mér. 


Í dag má svo finna á tveimur stærstu netfréttasíðunum fréttir af afkomu írska lággjaldaflugfélagsins Aer Lingus.  Það mætti í fljótu bragði halda að fréttirnar fjölluðu um tvö fyrirtæki sem fyrir algjöra tilviljun gegna sama hlutverkinu og heita sama nafninu...

Picture 3

 

 

 

 

 

 

Picture 2

 

 

 

 

 

 

 

 

Minnkandi hagnaður getur að lokum leitt af sér hreint og klárt tap, en það er ofsalega erfitt að hagnast og tapa á sama tíma.  Hvorug fréttanna er í sjálfu sér röng, en fyrirsagnir og nálgun geta mótað álit fólks á mönnum, málefnum og fyrirtækjum.  Það er stór munur á því annars vegar að hagnaður sé minni en á síðasta ári og hins vegar að fyrirtækið sé rekið með tapi.  Neðri fréttin er öllu ítarlegri og betur unnin.  Hún á heima á mbl.is.  

Einhverra hluta vegna rifjast upp speki knattspyrnuþjálfarans sem þrumaði yfir fróðleiksþyrstum enskum blaðamönnum..."You have to work your work!" 


Lærdómur helgarinnar.

Ég lærði það um helgina að sum börn eru svo lík öðru foreldra sinna að það er næstum því óhugnanlegt.  Ari Gunnar Þorsteinsson Grétars Gunnarssonar sannfærði mig endanlega.  Þessi unga, en afskaplega nákvæma útgáfa af Steina tók þátt í Gettu betur og þetta var skemmtilegasti spurningaþáttur sem ég hef séð.  Ég tók ekkert eftir spurningum eða stigafjölda, ég sá bara Steina litla fara á kostum!  Þorsteini tókst m.a.s. að ljósrita húmorinn yfir í erfingjann og það er dágott afrek. 
Það er skrítið að upplifa tvö svona tilvik með tveggja daga millibili, en hafi ég haft minnstu efasemdir um galdraheim genapollanna þá fuku þær út í veður og vind á sunndaginn.  Rakst á ónefndan mann á bókamarkaði í Perlunni og hann er svo hættulega líkur pabba sínum, einum þekktasta Íslendingi allra tíma, að ég varð kjaftstopp og ráfaði dágóða stund um Perluna eins og riðuveik rolla.  Náði að hrista af mér furðuna og kaupa fínar bækur.  Keypti Furstann, Glæp og refsingu, Bono um Bono, Bítlabókina hans Ingólfs Margeirssonar, sjálfævisögu George Best og Dexter, sem hreinlega verður að standa undir væntingunum sem sjónvarpsþættirnir á Skjá 1 hafa hlaðið upp.  Bestu kaupin gerði ég þó í lítilli og lágværri ljóðabók.  Ég átti reyndar eintak af henni fyrir, en til þess að vera nokkuð öruggur um að hafa hana í seilingarfjarlægð um ókomin ár þótti vissara að kaupa annað eintak.  Þetta er ein fallegasta bók sem ég hef átt og það myndu nú ansi margir gera sjálfum sér greiða með því að verða sér úti um svo eins og eitt eða tvö stykki og lesa á eigin hraða.  Bókin heitir Þú og heima.  Höfundurin heitir Sverrir Páll.

Ég lærði það um helgina að sumir sjónvarpsþættir eru verri en aðrir.  Þeir sem eru sendir út úr stórum sal í Kópavogi eru stundum verstir.  Er ekki verið að grínast með þetta?
Ég lærði það um helgina að það getur verið ágætt að horfa á tiltölulega fáa fótboltaleiki um helgar.  Kom þægilega á óvart.
Ég lærði það um helgina að Rás 2 er handstýrðasta útvarpsstöð landsins.  Ég var eiginlega búinn að gleyma því hvað hún er laus við sjálfkeyrslu.  Það er hugsanlegt að það séu í senn bæði stærsti kostur hennar og galli.
Ég komst að því um helgina að ég hef verið dáleiddur þegar ég keypti mér jakkaföt í síðustu viku.  Buxurnar passa ágætlega, en í jakkanum gæti ég falið nýlegan smábíl.  Stórfurðulegt, ekki síst í ljósi þess að ég mátaði jakkann áður en ég keypti hann.  Getur verið að þetta hafi bara verið speglar og falskur botn þarna í búðinni?

Pabbi á afmæli í dag.  Mælst er til þess að landsmenn fagni því allir, hver á sinn hátt.  Það væri t.d. vel til fundið að gleðja eldri son hans með fjárframlögum.  Ekki síst eftir að sonurinn hætti við að stofna Styrktarsjóð Snorra Sturlusonar og hefja landssöfnun.


Höddi Magg...

...sá frómi piltur og mikli snillingur opinberar það á síðum Sirkuss í dag að þegar hann var 19 ára hafi hann verið blautur á milli eyrnanna.  Sem betur fer erum við öll þannig af Guði gerð að túlka má millieyrnapláss okkar blautt...svona upp að vissu marki...en ég lifi í þeirri trú að blaðamaðurinn sem tók viðtalið hafi hnotið um lyklaborðið sitt, en ekki að Höddi hafi blotnað aukalega á milli eyrnanna...frekar en á bak við þau.

Það er stórfenglega gefandi og ánægjuaukandi að vinna með mönnum eins og Sigga Sverris og Steina G.  Greind, skemmtilegheit og manngæska mætast í hæfilegum hlutföllum í þessum ágætu mönnum.  Steini hefur m.a. opnað heim Grateful Dead og bent mér á skemmtilegheit á borð við Clem Snide.  Tónspökum lesendum er bent á að kynna sér málið betur.

Rás 2 á sunnudagsmorguninn.  Afleysing.  Magga mamma í fríi.  Góð upphitun fyrir næturvaktarbröltið sem hefst um aðra helgi.  Fann glimrandi gott nafn á næturvaktina.  Eigi skal slökkva.  Ég tek mér Martein Mosdal til fyrirmyndar að þessu leyti.  Ég kem aftur.  Ég kem alltaf aftur.  Á Rás 2.


Frétt dagsins...

...og varaði um leið við mikilli hálku í borginni.  Þurfum við að ræða þetta eitthvað frekar?

Á þessum bæ fóru menn að rifja upp eftirminnilegar fyrirsagnir og undarlegt fréttamat.  Það þótti t.d. nokkuð gott þegar varað var við tímabundinni hálku fyrir skemmstu.  Fyrirsögnin Þremur sleppt eftir krufningu og fréttaeftirmálinn í Alþýðublaðinu sáluga...þess má geta að þegar blaðað fór í prentun stóð frystihúsið á Patreksfirði í ljósum logum stóðu eiginlega upp úr.

 
Þetta er orð sem virðist vera til í tveimur myndum.

Mynd046

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Er smurbrauðstofa kannski eitthvað allt annað en smurbrauðsstofa? 


mbl.is Fleygðu flatskjá í gegnum rúðu í Bræðrunum Ormsson til að komast út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert stefnir...

...þetta þjóðfélag eiginlega?  Sjálfskipaðar kvenréttindamógúlur (ath...mógúlar í kvenkyni!!!) góla hver í kappi við aðra og gefa sér ekki einu sinni tíma til að anda á milli fúkyrða og stórra fullyrðinga.  Andleysið veldur því að heilinn fær ekki nógu mikið súrefni og allir þeir sem kalla eftir rökstuðningi og gögnum eru kallaðir "litlir kallar", kjánar og þaðan af verra.
Margt má betur fara í þessu skrítna þjóðfélagi okkar, en lausnin felst ekki í því að allir horfi á Iron Jawed Angels eða lesi skýrslur Diönu Russel.  Hún felst heldur ekki í kynjakvóta, hvorki á framboðslistum né í stjórnum fyrirtækja.  Kynjakvóti orgar á vandræði og kallar á að gengið verði framhjá hæfum einstaklingum.  Þetta er ekkert rosalega flókið.

Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að stúlkan á forsíðu fermingarbæklings Smáralindarinnar sé í stellingu sem er "velþekkt úr klámmyndum"???  Hvernig?  Segir þetta ekki meira um hugsunarhátt þess sem túlkar stellinguna heldur en stellinguna sjálfa?  Ég sé a.m.k. ekkert...ég endurtek ekkert...klámfengið við þessa mynd og hún kveikti engar kynferðislegar kenndir.  Er það kannski ég sem er skrítinn?

Það hlýtur að vera skemmtilegra að vera kátur og glaður.  Jón góði Ólafsson á t.d. hrós skilið fyrir algjörlega óborganlegt fiðluatriði í þættinum sínum sl. laugardag.  Þetta er einfaldlega einn af hápunktum íslenskrar sjónvarpssögu.  Jón Haukur, ofur-útsendingastjóri og þúsundþjalasmiður, á líka hrós skilið fyrir að taka ekki nærmynd af Höllu Vilhjálms og Einari Bárðar kvöldið áður.  Þjóðin hefði tæpast beðið þess bætur.  Ógleymanleg sjónvarpsstund, en tæplega hápunktur.  Willum Þór á líka hrós skiliði fyrir setja Neil Young í liðið hjá Charlton.  Ég held að ég hafi aldrei verið eins nærri því að skella upp úr í sjónvarpsútsendingu og þegar Neil Young kom brunandi upp hægri kantinn.  Hægri bakvörður Charlton heitir Luke Young.  Útvarpsmaðurinn á Sögu sem var að fara yfir afmælisdagbókina og hnaut um erfitt nafn fór líka langleiðina með að hljóta sérstakt viðurkenningarskjal.  "Winston sjú...sjö...tsjú...kúr...eða hvernig sem það er nú lesið".  Félagi hans kom honum til bjargar.  "Winston Tsjörtshill heitir hann".  Að lokum...skemmtilegasta bloggið í öllum bloggheiminum.  Skyldulesning.


Ég er ekki alveg...

...viss um að mig langi til að kaupa kökur og annað góðmeti í bakaríinu sem hefur þessa köku til sýningar í borðinu sínu.  Ég geri ráð fyrir að kakan sé höfð þarna til að auka áhuga á framleiðslunni, en það kann að vera að ég sé að misskilja þetta...að þetta snúist um það að sýna fram á endingu og gæði. 

Mynd031

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vona að Viktoría Sól hafi það gott.  Hún erfir það vonandi ekki við foreldra sína að skírnarveislan fyrir tæpum þremur árum hafi verið kökulaus.


Afmælisbarn dagsins...

...er Sigurður Sverrisson.  Hann er fimmtugur.  Sigurður verður að heiman í kvöld.  Hann sinnti hins vegar starfi sínu hjá KOM í dag af miklum myndarskap og dró hvergi af sér.

Mynd037 Mynd032

 

 

 

 

  
 

 

 

 

 

Siggi er vænn piltur og góður og því var honum haldin vegleg, tvíframlengd afmælisveisla.   Veitingar voru veglegar og gjafir góðar.

Mynd039

Mynd045

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Um fagurfræðileg og heilsuaukandi áhrif Liverpool-treyjunnar var reyndar deilt innan veggja fyrirtækisins í dag, enda koma menn hér hver úr sinni áttinni.  Slíkt ástand gæti boðað vont, en við erum allir merkisberar skynsemi og greindar og getum því rætt boltamálin á afar vitlegum nótum.  Steini heldur með Newcastle, Óli með Arsenal og Siggi auðvitað með Liverpool.  Fjölmiðlaforkólfar ættu að sjá hag sinn í því að ráða okkur til vinnu eins oft í viku og ástæða þykir til; umræðuþættir okkar yrðu til að dýpka skilning landsmanna á boltanum, samhengi hlutanna og blæbrigðum lífsins.


Þetta...

...er útsýni sem seint verður að fullu metið.  Svona blasir tilveran við mér við leik og störf á daginn.

Mynd035

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta eru ákveðin forréttindi! 


Ég á von...

...á því að geta farið að sýna svipbrigði á allra næstu dögum.  Gleði og hamingja verða væntanlega þær tilfinningar sem vinsælastar verða til opinberunar; harmur og vandlæting sístar til sýningar.

Ég gerði mér engan veginn grein fyrir því hversu óheyrilega þreytandi það er að hafa ekki stjórn á helmingi andlitsins.  Hefði líklega átt að gera það, miðað við fyrri reynslu, en þar sem árin eru farin að færast yfir tekur óminnishegri líklega við óheyrilega leiðinlegum minningum.
Lyfjarússið jók enn á þreytuna.  Ég hef reyndar ekki tekið eftir miklum skapsveiflum, svona þannig lagað, en síðustu daga hefur margt smálegt farið í taugarnar á mér.  Klæðaburður og sjálfsblekking sjónvarpsfólks og myndbandasýning í hálfleik á íþróttaútsendingu í sjónvarpinu, svona til að nefna eitthvað.  Metnaðarleysi.  Óeðlilega heimskulegar tillögur landsþings...sem kannski ætti ekki að koma á óvart miðað við ætterni þingsins.

Fróðleikur helgarinnar.  Svona lítur þetta út frá sjónarhóli lýsandans. 

IMG_0049

 

Og já...um helgina kynntist ég einbúa!


Jæja...

...er ekki orðið tímabært að rjúfa þögnina?

Það er verst að maður er búinn að missa af fjölmörgum skemmtilegum málum til að fjasa um.  Það verður bara að hafa það.
Helstu atriði frétta.  Ekki endilega í krónólógiskri tímaröð.  Ný vinna.  Andlitslömun og heilasneiðmyndataka.  Apple Macintosh.


Nýja vinnan er hjá KOM.  Almannatengsl.  Ég átti 20 ára fjölmiðlaafmæli síðasta haust, þannig að það var alveg orðið tímabært að taka frí frá þessu eiginlega fjölmiðlabrasi.  Miðlarnir tengjast auðvitað þessari nýju vinnu, en á allt annan og að mörgu leyti skemmtilegri hátt.  KOM er ljómandi skemmtilegur staður, stútfullur af skemmtilegu fólki.  Það skemmir ekki fyrir að ég þekki meirihluta starfsmanna og það af góðu einu.  Skátablaðið sem fylgir Morgunblaðinu á fimmtudaginn er okkar verk.  Fjandi gott, þótt ég segi sjálfur frá.

Fyrsti dagurinn var afar eftirminnilegur.  Ég eyddi stórum hluta dagsins á bráðamóttöku LSH.  Málið var að á sunnudaginn fór ég að finna fyrir pirringi í hægra auganu, tilfinningin var svona svipuð þeirri sem fylgir því að fá augnhár eða annað tilfallandi í augað.  Þegar leið á daginn fannst mér eins og ég væri að missa stjórn á hægri helmingi andlitsins, matarneyslan um kvöldið var eftirminnileg þar sem munnurinn var tregur til samstarfs.  Þegar ég burstaði tennurnar seint og um síðir fannst mér ég vera að fínpússa hryggjarliðina.  Mjög undarleg upplifun.  Við fyrsta hanagal á mánudag hélt ég að allt væri orðið gott, mér fannst andlitsstjórnun bara ganga bærilega.  Þangað til ég leit í spegil.  Stjórnun var hreinlega ekki til staðar; í stað þess að blikka báðum augum eins og þorri landsmanna blikka ég bara með því vinstra og brosið teygir sig bara til vinstri, verður einhvers konar besservisser-glott.  Þessir taktar minna á sterkustu hliðar árangursmiðaðra piparsveina, en verða þreytandi til lengdar.  Ég mætti til vinnu og blikkaði eins og það væri hluti af starfslýsingunni, en fljótlega upp úr hádegi var orðið ljóst að þetta gengi ekki til lengdar.  Ég hlýddi ráðum þeirra sem til þekkja og skundaði upp á slysó.  Þar kom fljótlega í ljós að þetta er vírussýking í hægra auga og hún teygir sig niður í taugarstjórnunarstöðina undir kinnbeininu.  Ef ég hef skilið þetta rétt er þetta náskýlt og keimlíkt Bell´s Palsy.  Það vill svo skemmtilega til að ég fékk Bell´s Palsy fyrir rúmum 20 árum...vinstra megin.  Líklega er þetta aðferð sem þeir þarna í efra nota til jafna ófríðleikann út.  Ljótur báðum megin!  Ég var sendur í heilasneiðmyndatöku til vonar og vara.  Ég fékk endurgreitt.  Nú tekur við hrikalegur 10 daga stera- og víruseitthvað-kúr.  Hann gæti haft áhrif á lundarfar.  Frábært.  Ef ég verð skapstyggur og viðskotaillur á næstunni er það vegna steranna.  Bara svo að það sé á hreinu.  

Eitt af því sem fylgir nýrri vinnu er nýtt tölvuumhverfi.  Nú hamra ég eins og vindurinn á Makka.  Ég beit það í mig fyrir mörgum árum að Makkinn væri einhvers konar prótótýpa af tölvu, snilldarlega markaðssett en samt ekkert spes.  Ég er hægt og bítandi að skipta um skoðun.  Þetta er hin fínasta græja.  Ef ég skrifa eitthvað andstyggilegt á næstunni er það vegna Makkans.  Bara svo að það sé á hreinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Snorri Sturluson
Snorri Sturluson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband