Mánudagur, 16. apríl 2007
Það er líklega við hæfi...
...að óska KR-ingum til hamingju með titilinn.
Benni Guðmunds fær sérstakar árnaðaróskir. Það hlýtur að vera sérlega ljúft og sætt að snúa "heim" aftur eftir lærdómsríka og að mörgu leyti eftirtektarverða "fjarveru" og skila titli í hús. Benni sýndi það og sannaði, sérstaklega í úrslitakeppninni, að hann á skilið allt það hrós sem á hann hefur verið hlaðið.
KKÍ á líka hrós skilið fyrir ágætt utanumhald. Friðrik Ingi og hans fólk er að gera fína hluti. Ekkert óðagot, en þetta skilar sér hægt og bítandi. Leikjaumgjörðin hefur breyst til hins betra og bikarúrslitaleikirnir eru ágætt dæmi um framfarir. Ekki svo að skilja að allt hafi verið í kaldakolum, en það munar um það t.d. að sjá alla þá sem koma að bikarúrslitaleikjum með beinum hætti uppáklædda og verðlaunaafhendinguna færða til í húsinu.
Fréttaumfjöllun hefur verið ágæt, ekki er á neinn hallað þótt nöfn Sigurðar Elvars og Óskars Ófeigs séu nefnd í því sambandi og þá ekki síst fyrir ítarefni af ýmsum toga. Ég skal viðurkenna að ég var svolítið hissa á tímasetningum leikja í kringum páskahátíðina, leikjauppröðun gerði það að verkum að blaðaumfjöllun var af skornum skammti og fréttaáhorf reyndar svolítið sérstakt þessa daga, en líklega er ekki hægt að hafa allt óaðfinnanlegt.
Tvennt er það sem snýr að íþróttabuffum og landsmönnum öllum og körfuboltinn hefur fram yfir aðrar íþróttagreinar á landinu bláa. Tölfræðiupplýsingar og netumfjöllun. Það er algjörlega með ólíkindum að t.d. HSÍ hafi ekki kveikt á tölfræðiperunni. Ég veit að flinkir og fullfærir aðilar hafa boðist til að taka þennan hluta að sér, þ.e.a.s. að halda utan um og birta tölfræðiupplýsingar í handboltanum, en því var kurteislega hafnað. Þar á bæ voru menn víst að bíða eftir nýju tölvuforriti. Og bíða enn.
Netumfjöllunin er gríðarlega mikilvæg og líklega má rekja þetta körfuboltauppihald á netinu til einnar bestu netsíðu allra tíma, nba.com. Hvort sem menn hafa áhuga á körfubolta eða ekki verður ekki framhjá því litið að síðan sú er eitt besta dæmið um það hvernig nýta á möguleika alnetsins heimsbyggðinni til hagsbóta. Mbl.is gerði t.d. gott mót með textalýsingu, sem virkar svona hálfpartinn eins og ódýrari týpan af leikvarpinu, sem einhverra hluta vegna hefur fjarað undan.
KR-ingar Íslandsmeistarar karla í körfubolta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 16. apríl 2007
Alltaf finnur maður eitthvað...
...sem léttir lund. Vörutorg er að koma sterkt inn. Stórbrotinn sjónvarpsþáttur á S1, þar sem hugmyndaauðgi, lífsgleði og umhyggja fyrir náunganum gera það að verkum að maður þorir vart að depla auga á meðan á yndislegheitunum stendur. Ég hef m.a.s. frestað því fram úr hófi að skoða nýju fínu myndirnar sem ég keypti í Perlunni um daginn- ég er svo hræddur um að missa af nýrri vöru hjá Vörutorgi. Sjónvarpsþátturinn er auðvitað bara hliðarspor, heimasíðan er ásinn sem þetta snýst um. Ég er búinn að finna þrjár vörur sem myndu létta mér lífið, auðga andann og líklega gleðja gesti og gangandi.
Allt byrjar þetta á því að þegar ég kem heim eftir langan vinnudag smeygi ég mér í heilsuinniskóna.
Samkvæmt lýsingu, sem engin ástæða er til að draga í efa, mun "fótum mínum líða eins og þeir séu í sjöunda himni". Tilhugsunin ein um að fæturnir upplifi hluti sem aðrir hlutar líkamans missa af gera skóna afar eftirsóknarverða. Galdurinn felst í frauðinu.
Þegar fæturnir hafa afpólað sig í alsælufrauði er orðið tímabært að elda eftirminnilega máltíð. Slíkt er nánast óhugsandi nema maður hafi við höndina salt- og piparkvarnir með ljósum.
Ég er ekki enn farinn að ná utan um það hvernig ég komst af án þessara kvarna. Fyrir utan það að maður er með salt- og piparmagnið algjörlega á kristaltæru (ljósbirtan tryggir hárrétt magn) getur maður duflað við matreiðslugyðjuna í rafmagnsleysi. Jafnvel ef peran springur og ananasinn er búinn!
Dagurinn er svo fullkomnaður þegar sest er niður í kvöldhúminu, málin rædd og lífsins gátur leystar. Kvöldið verður dapurt og gleðisnautt, nema að til staðar sé súkkulaðigosbrunnur.
Hvaða organdi snillingur fann þetta eiginlega upp? Nú skilur maður loksins af hverju súkkulaði er steypt í flatar blokkir. Það er auðvitað gert til þess að auðvelda flutningana...frá verksmiðjunni og heim til þeirra hundruða þúsunda sem eiga súkkulaðigosbrunn. Hvað getur hugsanlega verið betra en að dýfa flatbrauðinu í súkkulaði?
Ég er svolítið hissa á því að hafa ekki fengið einhvern þessara hluta í afmælisgjöf.
Líklega á manni eftir að leiðast alveg óskaplega þegar hlutir hætta að koma manni á óvart. Hlustaði aðeins á handboltalýsingar á Rás II í dag. Það var óendanlega hressandi að hlusta á Frey Eyjólfs og Ágúst Boga lýsa handbolta. Ég beið eftir því að Freysi tæki viðtal við markaskorara og Gústi segði mér úthlaupaferil markmannsins. Ég var samt spenntastur yfir því að heyra hvaða leik Andrea Jóns ætlaði að lýsa.
Mánudagsgetraunin.
Spurt er um tónlistarmann. Hann er einsmellungur. Væri hann NBA-aðdáandi, sem mér finnst frekar ólíklegt að hann sé, myndi hann eflaust halda með Celtics. Tónlistarbröltið hans er kennt við vesturströndina, þar sem hljómsveitin hans náði afar óspennandi árangri áður en hann hélt út á einherjabrautina. Lagið sem hann er þekktur fyrir kom út á plötu árið 1969 og varð stórsmellur. Kappinn náði ekki að fylgja laginu eftir, tilraunirnar til þess voru reyndar í besta falli sorglegar. Hann hætti tónlistarbröltinu árið 1972 og gerðist kúabóndi. Á níunda áratug síðustu aldar lét hann aðeins að sér kveða sem umboðsmaður og skipuleggjendi minniháttar tónlistarhátíða, en nýjustu fregnir herma að sambúðin við kýrnar sé í glimrandi blóma.
Hver er maðurinn...og hvað heitir smellurinn hans?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 15. apríl 2007
Buff...
...er frábær hljómsveit. Hún lyfti Söngkeppni framhaldsskólanna upp á æðra plan.
Merkilegt annars með þessa keppni, sem er ljómandi skemmtileg, að þeir og þær sem náð hafa tónlistarframa af einhverri sort í kjölfar hennar hafa sjaldnast raðað sér í efstu sæti keppninnar sjálfrar.
Tölvan mín tók upp á því um daginn að birta áður óþekkt tákn í stað hinna hefðbundnu bókstafa við liprandi léttan og leikandi áslátt. Mér datt fyrst í hug að þetta væri merki "að ofan"; að mér væri ætlað það stóra og mikla hlutverk að koma á samskiptum milli jarðarbúa og geimvera...að verur hefðu plantað samskiptakerfi í tölvunni minni. Þegar ég fór að velta málinu aðeins fyrir mér mundi ég svo að ég hafði geymt tölvuna á gólfinu eitt kvöldið og ástæða þessarar táknmyndunar er líklega álitsgjöf þessa unga manns á gripnum...
Hann hefur líklega haldið að IBM-inn væri einhver ódýr og hægfara garmur og lyft fæti. Þetta kostaði reyndar viðgerð, sem ég svo nýtti til uppfærslu, og nú get ég stýrt tölvukerfi Pentagon, lestarkerfi London og miðstýrt útrás íslensku bankanna frá heimili mínu. Það er allt í lagi að taka það fram að þjónustan hjá Nýherja var glimrandi góð.
Hér er flugmóðurskipið í hljóðveri á Rás II í allri sinni dýrð...eða því sem næst.
Ég varð eiginlega að taka aðra mynd þar sem sjálfskipaðir greindarhólar drógu það í efa að á "nýja" mixernum væru fleiri takkar en hinum eldri.
Lauflétt getraun í tilefni dagsins. Spurt er um hljómsveit. Hún er bresk og varð í rauninni til með þeim hætti að gítarleikarinn tók við búi og skyldum annarrar sveitar, hvar hann sló á strengi, og vantaði nýja meðreiðarsveina. Hann tók reyndar bassaleikarann úr hinni sveitinni með sér, en hann hætti fljótlega og við bassanum tók maður sem hafði séð um strengjaútsetningar á síðustu plötu hljómsveitarinnar sem var í andaslitrunum. Upphaflega stóð til að ráða trommarann úr Procol Harum og söngvara og gítarleikara, sem líklega enn þann dag í dag sér eftir því að hafa ekki þáð boðið. Þessi ágæti maður gerði svo endanlega í brók þegar hann mælti með öðrum söngvara sem hann taldi nokkuð efnilegan og sá tók boðinu fagnandi. Nýi söngvarinn benti svo á trommara, sem var ráðinn og úr varð ein magnaðasta sveit allra tíma. Hún spilaði að vísu til að byrja með undir öðru nafni, enda varð hún að klára tónleikaferðalag sem "undanfarinn" hafði lofað...og þetta nafn vísar ansi hraustlega í fyrri sveitina.
Hvað heitar þessar tvær hljómsveitir...þ.e.a.s. aðalsveitin og undanfarinn?
Bónusspurning...hver er sagan á bak við nafn hljómsveitarinnar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 13. apríl 2007
Framlag til pólitískrar umræðu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
"Hey, ert þú ekki...
...þarna...gaurinn þarna...Kompás-gaurinn. Alltaf að góma einhverja dóna?" Ég horfði opinmyntur á afgreiðslumanninn, sem í ofvæni beið eftir jákvæðum viðbrögðum og þar með staðfestingu á greind sinni og athyglisgáfu. Ég var eiginlega of hissa til að grípa gæsina, janka og halda því fram að ég væri að athuga afgreiðsluhraða og afsláttargleði einstakra starfsmanna. Ég hefði mjög líklega náð að tæma sjoppuna...án þess að greiða fyrir það krónu með gati. Afgreiðslumaðurinn tók því samt furðu vel að hann skyldi hafa hlaupið á sig, þetta virtist hvorki hafa áhrif á hressleikann né staðfasta trú á eigið ágæti og honum fannst þetta algjörlega skiljanlegt þegar hann áttaði sig á því að ég mæti nokkuð reglulega heim í stofu til hans og segi honum hvaða kall er að sparka í boltann hverju sinni. Svo hlustar hann víst líka stundum á úvarpið.
Ég var eiginlega...og er enn...alveg stúmm. Ég veit ekki hvort ég á að líta á þetta sem einn af hápunktunum á mínum ferli...eða jafnvel hinn dýpsta dal.
Ég rambaði, nánast fyrir tilviljun, inn á mjög athyglisverða vefsíðu á dögunum. Á þessari síðu er það til siðs...og þykir hreinlega svolítið töff...að innvígðir birti myndir af bílnum sínum...og kærustunni/kærastanum sínum. Ég stóð sjálfan mig að því að flakka fram og tilbaka á myndasíðunum, reyna jafnvel að finna einhvers konar kosmískt jafnvægi milli bíls og kærustu. Ég er ekki frá því að ég hafi fundið mynstur, sem ég mun hugsanlega opinbera þegar ég sé fram á að það þjóni hagsmunum almennings. Ég get þó opinberað það að það þykir laaaaangflottast að hafa bílinn og kærustuna á einni og sömu myndinni. Það er nokkurs konar nirvana.
Ég verð að sætta mig við það að vera dauðlegur maður.
Þetta er ein glæsilegasta sjálfrennireið landsins...
...og þetta er Hugrún...
Tónlistargetraun þáttarins. Ég á ekki von á því að við henni berist rétt svar. Steini lagði þessa fyrir mig í dag og ég var algjörlega úti á túni, óvinnufær fram eftir degi og svo yfirpældur þegar ég kom heim að ég fór til dyra þegar síminn hringdi.
Hvaða hljómsveit á fleiri topplög á bandaríska listanum en Bítlarnir, Beach Boys, The Rolling Stones og Elvis Presley til samans?
PS. Eigum við að ræða leiksýninguna á Old Trafford eitthvað sérstaklega? Hinir vantrúuðu hljóta að vera farnir að nálgast sannleikann.
Bloggar | Breytt 11.4.2007 kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Sunnudagur, 8. apríl 2007
Kveikja ljós...með ananas?
Ég gerði heiðarlega tilraun til þess sl. nótt að kveikja ljós með niðursoðnum ananas. Kannski væri réttara að segja að ég hafi ætlað að setja ananas í perustæðið, en ég var engu að síður nokkuð sannfærður um að það myndi ekki skila tilætluðum árangri. Furðulegt.
Ég "vaknaði" um miðja síðustu nótt, búinn að dotta með tölvuna á lærunum yfir einhvers konar undirbúningi fyrir leiki dagsins í boltanum. Dottkaflarnir urðu lengri og áhugaverðari; einhverra hluta vegna ákváðu fingurnir, í tiltölulega litlu samráði við heilann, að halda áfram að hreyfa sig nokkuð taktfast og af einbeittum skrifvilja. Þegar ég skoðaði afraksturinn í morgun blasti við handrit að hádramatískum söngleik, þar sem forboðnar ástir, sviksemi og gróðavon toguðust á við væntumþykju og náungakærleik í bland við magnþrungna sorgar- og saknaðarsöngva og gleðilög af bestu gerð. Það vottaði ekki fyrir knattspyrnupælingunum sem ég þurfti sárlega á að halda.
Ég hafði það af að stíga upp úr stólnum og leggja af stað inn í rúm, með viðkomu á baðherberginu. Það vill svo skemmtilega til að baðherbergisslökkvarinn á systkini, óvirka og vita gagnslausa tvíbúra, sem búa rétt fyrir ofan hann og á leið minni inn á bað rak ég fingurinn í átt að þessum slökkvurum í þeim tilgangi að tendra ljós. Ég hitti á óvirku tvíburana, sem þrátt fyrir skyldleikann, eru nokkuð ólíkir bróðurnum sem ræður yfir ljósadýrðinni á baðinu. Það skilaði litlum árangri að fitla við þá og þar sem ég stóð og hamaðist á tökkunum gerði heilinn mjög heiðarlega tilraun til að koma þeim skilaboðum áleiðis að þetta væri vonlaus barátta. Ég ákvað hins vegar, upp á mitt einsdæmi, að peran á baðinu væri sprungin. Ég lagði leið mína inn í eldhús til að sækja nýja peru, man lítið eftir því ferðalagi og það næsta sem ég vissi var að ég stóð í almyrkvuðu baðherberginu með ananasdós í hönd. Ananasinn er geymdur í næsta nágrenni við ljósaperurnar og þótt ég vissi það mætavel að það skilaði nákvæmlega engum árangri að setja ananasskífur í perustæðið var ég að hugsa um að láta á það reyna. Maður veit aldrei. Ég fór líka að velta því fyrir mér hver í fjandanum hefði sannfært mig um að lausnin á ljósleysinu fælist í...ananas.
Ég hugsaði aðeins um þetta í dag...og er nákvæmlega engu nær.
Annars er allt gott bara...þannig.
Getraun þáttarins...hvaðan er þessi mynd...og af hverju er hún?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Er ég...
...sá eini sem fannst eitthvað skrítið við það að í sjónvarpsfréttum á sunnudagskvöld skyldi umfjöllun um svokallaðar álverskosningar í Hafnarfirði vera í höndum aðila sem tengist frambjóðanda sem er vægast sagt mótfallinn álversframkvæmdum blóðböndum? Sjálfsagt hefur ekkert verið athugavert við vinnubrögðin, en þetta er samt ófaglegt og með góðum vilja væri hægt að hrúga gagnrýninni á þessa tilhögun.
Ég kaus ekki. Þetta voru þögul mótmæli mín við þeirri foráttuheimsku sem grasseraði í kringum þetta hringleikahús fáránleikans. Í öllu þessu kraðaki, einkum og sér í lagi síðustu dagana fyrir kosningarnar, fór lítið fyrir faglegri umfjöllun og staðreyndum. Þetta snérist um frasa og hálfkveðnar vísur. Ég tók t.d. eftir því að Sól í Straumi auglýsti að 30% allrar álframleiðslu í heiminum færi í einnota umbúðir. Það er vissulega rétt, en málið er að eftir þessa einu notkun eru umbúðirnar endurunnar; kókdós í dag, flugvélavængur á morgun. Það gleymdist að taka það fram að 80% alls þess áls sem framleitt hefur verið í heiminum er enn í notkun. Það gleymdist líka að taka það fram að endurvinnsla áls er afskaplega spör á orku, eyðir um 5% þeirrar orku sem fer í endurvinnslu annarra efna. Svo snérist þetta ekki um það að Hafnfirðingar samþykktu stækkun álvers. Ákvörðun um stækkun var á annarra herðum, Hafnfirðingar hefðu getað samþykkt að láta land undir framkvæmdir. Þeir ákváðu að sleppa því. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að álverið í Straumsvík eigi samt eftir að stækka.
Hefur enginn spáð í það hvað forsetinn er alltaf að gera í útlöndum? Hann er orðinn víðförlari en Valli sjálfur, en á hvaða forsendum er hann á stöðugu flugi og hver borgar? Þegar eiginkonan lærbrotnaði í skíðabrekkum ríka og fræga fólksins í Aspen ku forsetinn hafa verið á fundum í Washington. Kannski fylgist ég ekki nógu vel með, en ég hef ekki séð svo mikið sem eitt greinarkorn um embættisverk forsetans í höfuðborg Bandaríkjanna.
Í þessum bolla felast menningarverðmæti...
Þetta er tæknimannakaffi RÚV. Það á skilið allt það lof sem það fær. Á laugardagskvöldum drekk ég u.þ.b. 42 lítra af þessum dásamlega drykk og er hress sem aldrei fyrr. Sofna að vísu ekki fyrr en vel er liðið á þriðjudaginn, en það er allt í lagi. Þrátt fyrir ýmiss konar rannsóknir og tilraunir hefur enginn komist að því hvað það er nákvæmlega í framleiðsluferlinu sem gerir það að verkum að þetta kaffi er svona ofboðslega gott. Þetta er svona eins og með pylsurnar í Sjellinu á Dalvík. Þetta voru bestu pylsur í heimi - og það var vísindalega sannað - en nýjum eigendum tókst að klúðra því, pylsurnar duttu niður í meðalmennsku. Ég held í þá von...og miðað við öll önnur teikn sem eru á lofti og sveima yfir Efstaleitinu...heldur tæknimannakaffið velli um ókomna tíð.
Það fer ósegjanlega í taugarnar á mér þegar leiklýsendur í boltanum segja að atvik sem verður í leik sé umdeilt. Það getur ekki verið orðið umdeilt á nokkrum sekúndum; vissulega umdeilanlegt, en það verður ekki umdeilt fyrr en á síðari stigum.
Það fer líka í taugarnar á mér að heyra talað um meiðsl. Hvert fór i-ið?
Er gaman að halda með Liverpool?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 16. mars 2007
Er ekki bara málið...
...að krýna Færeyinginn sigurvegara og hætta þessu rugli?
Einhverra hluta vegna virðast sumir standa í, eða hafa staðið í, þeirri trú að færeysk tónlist sé algjörlega kæst. Það er misskilningur. Hún er fersk. Einhverjir kunna að muna eftir Tý og Viking Bandinu og svo hefur Eivör auðvitað borið hróður færeyskrar tónlistar víða. Síðustu misserin hafa sprottið upp glimrandi fínar hljómsveitir og listamenn í Færeyjum; Deja Vu, Marius, Högni Lisberg, Teitur, Lena og Gestir svo fátt eitt sé nefnt. Gestir eiga einmitt lag í tónlistarspilaranum hérna til hliðar, minna á köflum pínulítið á Radiohead, svona líka ljómandi fínir. Ekki má gleyma G-Festivalinu í Götu, sem ber kraumandi tónlistarlífinu í Færeyjum fagurt vitni.
Skaust á bílasölu í dag, skutlaði Gissa frænda að sækja "nýjan" bíl. Hann keypti sér lítinn og skrítinn Peugeot, svo hrottalega upptjúnaðan að ég á ekki von á öðru en að hann snúi allt undan sér innan fjögurra vikna. Bíllinn sko. Á bílasölunni voru tveir innibílar og samanlagt verðmæti þeirra var 24 milljónir króna. Audi-jeppinn kostaði 11 milljónir, sem er kannski réttlætanlegt upp að vissu marki, og Porche-inn kostaði 13 milljónir. Verðmiðinn var næstum því stærri en bíllinn sjálfur. Ég myndi hugsanlega kaupa svona bíl ef ég væri með trilljón í mánaðarlaun. Ég myndi þá skutla honum í skottið á Skódanum og skjótast með hann heim.
Það kemur á óvart að ekki skuli hafa borist svar við getraun snorrans. Það eru komnar vaðandi vísbendingar; faðir einsmellungsins er stórmógúll í tónlistarheiminum og í þessu eina lagi hans sem vakti athygli syngur einn þekktasta tónlistarmaður síðari tíma. Nafn Debarge hefur borið á góma...og það vill svo skemmtilega til að James DeBarge var til skamms tíma mágur þekkta tónlistarmannsins.
Þetta er pabbi einsmellungsins...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 15. mars 2007
Á meðan...
...allt virðist vera að gerast; massívar kjaftasögur um forstjóraskipti hjá Símanum, Britney orðin ástfangin, Tottenham að ná mælanlegum árangri, þingmenn keppast við að gera í brók, Baugsmál verða meira og meira spennandi og hugmyndir um háskóla á Keflavíkurvelli eru ennþá inni í myndinni er ég með hugann við...bjúgu.
Sem ungur og upprenandi þjóðfélagsþegn, grunlaus um gefandi verkefni og gleðina sem beið mín handan við hornið, tók ég það að mér tímabundið að framleiða bjúgu. Þetta var eitt ógeðfelldasta starf sem ég hef fengist við og er þó af ýmsu að taka. Vinnustaðurinn sjálfur var ekkert svo slæmur í sjálfu sér, ég var að safna peningum til að kaupa skínandi fagra sjálfrennireið og setti það ekki fyrir mig að fást við hin ýmsu verk. Bjúgnaframleiðslan markaði djúp spor í sálina og eftir fyrstu framleiðslulotu ákvað ég að skilgreina bjúgu aldrei aftur sem mat. Aldrei. Ég geri engum þann óleik að birta lýsingar á takteringunum við framleiðsluna, en á svipuðum forsendum forðast ég ákveðnar fisktegundir, svið og slátur.
Í dag læddist þessi ákvörðun um að láta af bjúgnaáti aftan að mér. Ég hef hingað til skilgreint hana sem eina þá bestu ákvörðun sem ég hef tekið á ferlinum, ekki síst vegna þess að hún hefur forðað mér frá kvöl, pínu, sárum minningum og hreinlega vondum mat. Ég var á fundi í hádeginu í dag og fundarhaldarar, góðborgarar af bestu gerð, buðu til matar. Fullur tilhlökkunar gekk ég á garðann, en mér brá hressilega þegar sullandi sveitt bjúgu reyndu að ná við mig augnsambandi. Ég þurfti á hraða ljóssins að taka ákvörðun; móðga hina góðu bjóðendur eða rifja upp leiðinleg kynni við þetta fyrirbæri sem sumir telja lostæti. Verandi af sjómannskyni ákvað ég að láta mig hafa það. Ég bað um lítinn skammt um leið og ég skellti flötum lófa á bumbuna í táknrænum tilgangi og drekkti svo kvikindunum í meðlæti. Ég hef aldrei á ævinni borðað eins mikið af rauðrófum, ég var sannast sagna farinn að tárast og faldi það með gamla "fékk eitthvað í augað"-bragðinu, og líklega hef ég sett einhvers konar met í neyslu dverggulróta. Ef ekki Evrópumet þá Íslandsmet. Alla vega landsfjórðungsmet. Þetta verður að teljast nokkuð vel af sér vikið þegar haft er í huga að ég reyndi að halda niðri í mér andanum sem mest ég mátti, til að draga úr áhrifum bjúgnanna, og svona eftir á að hyggja kann vel að vera að ég hafi misst meðvitund í skamma stund.
Þetta var í fyrsta sinn í rúm 20 ár sem ég borða bjúgu. Þetta var, að því gefnu að ég eigi það ekki á hættu að móðga gott fólk, fræga leikara og/eða þjóðhöfðingja með því að afþakka eða sniðganga, í síðasta sinn sem ég borða bjúgu.
Þessi merkilegi tónlistarmaður á afmæli í dag. Hann er einsmellungur.
Getraun dagsins er...hver er hann, hverra manna og hvað var það sem gerði eina smellinn hans eftirminnilegan og sérstakan?
Hrós dagsins fær Coca Cola Zero. Ekki auglýsingarnar, heldur drykkurinn sjálfur. Auglýsingaherferðin var hörmuleg. Drykkurinn er fínn. Loksins er kominn sykurlaus gosdrykkur sem bragðast eins og hann innihaldi heilt tonn af sykri. Gott gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Hvernig...
...er hægt að gefa út dagblað, ætla sér stóra og mikla hluti, en bjóða blaðið ekki í áskrift? Það vakti furðu hér í vinnunni að DV skilaði sér aldrei í póstkassann og þegar farið var að grennslast fyrir um blaðaskortinn kom í ljós að það er bara ekki í boði að gerast áskrifandi. Takk fyrir túkall. Að vísu er boðið upp á áskrift að helgarblaðinu. Þetta er stórfurðuleg markaðshyggja. Ég á ekki von á því að alvaldið bæti því við sem vantar upp á. Ég græt þetta svo sem ekkert sérstaklega, geðheilsu minni er tæplega ógnað þótt ég fái téð blað ekki í hendurnar á hverjum degi, en af takmörkuðum kynnum sýnist mér blaðið samt ágætt.
Ég rakst á þessa frétt á mbl.is í gærkvöldi. Umjöllunarefnið er auðvitað grafalvarlegt og alls ekki til að henda gaman að, en málvillan hreinlega stekkur í fangið á manni. Sat á strák mínum, reiknaði með að fréttin hefði verið unnin í miklum flýti og bjóst við að hún yrði leiðrétt í morgunsárið. O nei. Hún er þarna enn. Óbreytt.
Ég held samt tryggð við mbl.is. Skil ekki Vísisvefinn. Hann er alltof kaótískur, fréttamatið er stundum skrýtið og flæðið stórfurðulegt.
Það er reyndar svolítið fyndið að skoða forsíðu Vísisbloggsins. Einhver hélt því fram að þetta blogg héldi heimsóknafjöldanum á visi.is uppi, en það kann að vera gaspur og grunlaust hjal. Meirihluti skríbentanna sem opinberaðir eru bloggforsíðunni eru starfsmenn fyrirtækisins sem heldur vefnum úti (dótturfyrirtækis, móðurfyrirtækis...það skilur þetta hvort eð er enginn lengur). Tilviljun?
Einn reyndasti og dáðasti útvarpsmaður landsins fór hamförum á öldum ljósvakans fyrir skemmstu. Það eru þessi litlu atriði sem gefa lífinu gildi, verða til þess að maður nálgast verkefni dagsins með bros á vör. Reynsluboltinn ætlaði að hafa vaðið fyrir neðan sig, tryggja hagsæld og góða heilsu um ókomna tíð, sló þremur þéttingsföstum höggum í borðið með krepptum hnefa og mælti skýrum rómi: "Þrír, fimm, sjö!"
Getraun dagsins. Hvar í rausinu hér að ofan er vísað í góðan og gildan dægurlagatexta? Hver er höfundur lags og texta?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggvinir
- sturla
- arnim
- aronb
- atlifannar
- bennirabba
- biggibraga
- bjarney
- blues
- braids
- charliekart
- dabbi
- doddilitli
- dyrley
- egillg
- eythora
- eyvi
- feron
- forsetinn
- gaflari
- gretaro
- grumpa
- gudbjorn
- gudjonbergmann
- gudni-is
- gudnim
- gummigisla
- gunnarfreyr
- gusti-kr-ingur
- habbakriss
- hallgri
- hannesjonsson
- hannibal
- heidathord
- heimskyr
- helgigunnars
- hergeirsson
- heringi
- hjossi9
- hlekkur
- hossilar
- hvala
- hvitiriddarinn
- ingvarvalgeirs
- ithrottir
- jabbi
- jakobsmagg
- jax
- jbv
- jensgud
- jonasantonsson
- juljul
- king
- kjarrip
- kosningar
- kvistur
- latur
- laufabraud
- ljosmyndarinn
- maggi270
- malacai
- markusth
- moppi
- nesirokk
- olafurfa
- orri
- raggipalli
- runarhi
- rungis
- sax
- saxi
- sedill
- seth
- sigmarg
- skallinn
- steinibriem
- stormsker
- sven
- svenko
- svenni71
- sverrir
- swaage
- thordursteinngudmunds
- tilfinningar
- vg
- x-bitinn
- ylfamist
- 730
- bestfyrir
- pjeturstefans